Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 21. september 2012 07:30
Elvar Geir Magnússon
Lárus Orri: Þó einn leikur sé eftir þá er hellingur eftir
Lárus Orri Sigurðsson.
Lárus Orri Sigurðsson.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
KF getur á morgun komist upp í 1. deildina en liðið mætir Hamri í lokaumferð. Ef Fjallabyggð tapar ekki leiknum þá mun liðið tryggja sæti sitt í 1. deild að ári.

KF er sem stendur í öðru sæti en HK og Afturelding eru þar fyrir aftan og vonast eftir því að liðið misstigi sig. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari KF, býst við hörkuleik í Hveragerði.

„Þetta verður hörkuleikur. Hamar hefur mjög gott lið. Í þeim leikjum sem ég hef náð að sjá með þeim er mikil barátta í þeim og þeir öflugir fram á við. Þetta verður gríðarlega erfiður leikur," segir Lárus.

KF vann 4-1 sigur þegar liðin mættust í fyrri umferðinni.

„Það var ekki þægilegur leikur þótt hann hafi farið 4-1. Staðan var 1-1 þegar það voru einhverjar 60 mínútur búnar, þá náðum við að setja tvö mörk á tveimur mínútum. Það gaf okkur smá svigrúm en allar 90 mínúturnar í þeim leik voru barátta út í eitt."

KF hefur fengið góðan stuðning í sínum leikjum og verður rútuferð frá Fjallabyggð í þennan lokaleik.

„Það er búið að fylla rútu og stuðningsmenn hjálpa okkur. Það eru margir brottfluttir Siglfirðingar og Ólafsfirðingar sem hafa verið að mæta vel á útileikina okkar. Það hefur heyrst meira í okkar mönnum en heimamönnum á vissum leikjum þó það hafi ekki verið rútuferðir," segir Lárus.

Leikmannahópur KF hefur verið tvískiptur síðasta mánuðinn.

„Ég hef bara verið með helminginn af hópnum hérna fyrir norðan meðan hinir hafa verið fyrir sunnan. Maður fær liðið bara saman deginum fyrir leik. Ég held að menn geri sér alveg grein fyrir því hvað er í húfi. Menn hafa verið spenntir alla vikuna og bíða eftir þessum leik."

„Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta er langt frá því að vera komið, það getur allt gerst ennþá. Þó að það sé einn leikur eftir þá er hellingur eftir," segir Lárus Orri Sigurðsson.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner