„Við vorum nokkuð saddir í 87 mínútur eða hvað það var en hungrið kom aðeins í restina og það dugði til að ná í punktinn,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks eftir 1-1 jafnteflisleik við Fylki í kvöld. Blikar jöfnuðu leikinn á lokamínútu leiksins eftir að Ólafur hafði gert nokkrar breytingar á liði sínu.
„Við tókum ákveðna sénsa og hentum Sverri upp til að fá meiri grimmd þarna fremst. Það tókst, lucky punch.“
Varamenn Breiðabliks frískuðu mikið upp á leik liðsins og Ólafur var ánægður með kraftinn í þeim.
„Þeir komu með ákveðinn kraft. Það var ákveðin deyfð yfir okkur lungann úr leiknum og það var fínn kraftur úr varamönnunum.“
„Mér fannst Fylkisliðið vera grimmara og sterkara svona heilt yfir í leiknum. Við vorum heppnir að vera ekki komnir tvö og þrjú núll undir en það var markmaður sem tók það sem þurfti að taka og svo vorum við nægilega heppnir eða duglegir í restina til að ná í punktinn.“
„Við fengum góð færi sem að við nýttum ekki og það var jafnt á komið með liðunum í því að nýta ekki færin. Þess vegna var þetta svolítið læstur leikur. Eitt, eitt og ég held að Fylkismennirnir séu súrari heldur en við,“ sagði Ólafur meðal annars en hægt er að horfa á allt viðtalið við hann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir