Hallur Birgisson formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, John Andrews þjálfari og Jóhann Már Helgason framkvæmdastjóri Aftureldingar handsala samstarfið til 2ja ára.
John Andrews hefur skrifað undir samning um að þjálfa kvennalið Aftureldingar áfram næstu tvö árin.
John hefur stýrt liðinu frá því um mitt sumar árið 2010 en í sumar endaði liðið í 7. sæti Pepsi-deildarinnar undir hans stjórn.
,,Þessi árangur telst sérstaklega góður þar sem enn fer fram mikið uppbyggingarstarf í Aftureldingu og var að jafnaði rúmur helmingur leikmanna liðsins ungir uppaldir leikmenn. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að liðið varð fyrir miklum skakkaföllum þegar 5 byrjunarliðsmenn forfölluðust rétt áður en tímabilið hófst," segir í tilkynningu frá félaginu.
,,Leikmenn liðsins hafa bætt sig verulega undanfarin ár auk þess að öðlast meiri reynslu. Því er hægt að gera kröfur um enn betri árangur á næsta ári. Með framlengingu samnings milli Aftureldingar og John vilja báðir aðilar sýna í verki að þeir eru komnir til að vera – og takast á við það verkefni að gera Aftureldingu að einu besta félagi landsins."
,,Það mun félagið gera með því að byggja á heimamönnum, en styrkja liðið ár frá ári með 1-2 sterkum íslenskum leikmönnum – og 2-3 afburða erlendum leikmönnum á meðan á uppbyggingunni stendur. Félagið leggur mikinn kraft í að byggja upp sína leikmenn, m.a. með því að vera alltaf með frábæra þjálfara í öllum stöðum. Nefna má að í dag er þjálfarateymið byggt upp á auk aðalþjálfara, aðstoðarþjálfari, styrktarþjálfari, markmannsþjálfari, meiðsla- forvarnaþjálfari, hlaupa stíls og snerpu þjálfari og hugarfar og matarræði," segir í tilkynningunni.
Athugasemdir