Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   fim 27. september 2012 17:30
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvað get ég lært af U21-landsliði Íslands?
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Eftirfarandi pistill birtist á heimasíðunni siggiraggi.is og er birtur með leyfi höfundar



Árin 2009-2011 eignaðist Ísland sennilega sitt sterkasta U-21 árs landslið í knattspyrnu frá upphafi. Það lið komst í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í okkar knattspyrnusögu.

Liðið var skipað mörgum frábærum leikmönnum, Gylfa Sigurðssyni, Kolbeini Sigþórssyni og Aroni Einari Gunnarssyni svo nokkrir séu nefndir. Liðið burstaði meðal annars Evrópumeistara Þýskalands á leið sinni í lokakeppnina. En hver var ástæðan fyrir því að leikmenn liðsins voru svona góðir í fótbolta? Hvað var öðruvísi við þetta lið og hvað einkenndi leikmenn liðsins? Var hægt að sjá eitthvað mynstur? Var þetta hin svokallaða knattspyrnuhallarkynslóð? Getum við lært eitthvað af þessum hópi leikmanna og þeirra bakgrunni í knattspyrnu til að byggja upp framtíðar afreksmenn og afrekskonur okkar?

Ég vildi svör við þessum spurningum og ákvað því að gera rannsókn á þessu sjálfur. Ég sendi því spurningalistakönnun á alla leikmenn sem höfðu verið í leikmannahópi U-21 landsliðsins árin 2009 og 2010 (hópurinn sem vann sér rétt til að leika í lokakeppninni 2011).

Alls svöruðu 23 af 32 leikmönnum sem höfðu a.m.k. komið inná í leikjum liðsins en 2 í viðbót höfðu verið í hóp en ekki komið inná í leik (71.9% svörun). En eftirfarandi urðu helstu niðurstöðurnar:

Í liðinu má sjá mikil fæðingardagsáhrif. 47% leikmanna voru fæddir í janúar-mars en einungis 6% leikmanna í október-desember.

Langflestir leikmannanna léku í yngri landsliðum Íslands og höfðu þaðan reynslu, þó ekki allir (ekki Jón Guðni, Alfreð Finnbogason og Elfar Freyr).

3 leikmenn töldu sig hafa verið meðal þeirra fremstu á landsvísu í sínum aldursflokki strax á aldrinum 5-6 ára, 2 leikmenn töldu sig ekki hafa orðið það fyrr en á aldrinum 19-20 ára. Svörin dreifðust mikið en flestir sögðu á aldrinum 12-17 ára. Þú getur því aldrei vitað með vissu hver verður framúrskarandi leikmaður, alveg sama hversu gamall viðkomandi leikmaður er.

Nánast allir leikmenn liðsins sögðust hafa æft mjög mikið aukalega eða mikið aukalega fyrir utan hefðbundnar æfingar hjá sínu félagi.

Er leikmennirnir voru spurðir að því hver þeir töldu mikilvægustu ástæður þess að þeir sem einstaklingar væru svona góðir í fótbolta var algengasta ástæðan sem var gefin upp – “Ég æfði aukalega”, í 2. sæti var svarið “góðir þjálfarar” og í 3. sæti “miklar æfingar”. Alls gáfu leikmenn upp 42 ólíkar ástæður.

Hér er dæmi um týpískt svar leikmanns: “Ég var alltaf í fótbolta þegar ég var yngri, ef ég var ekki á æfingum þá var ég úti á velli að leika mér allan daginn. Annars vildi ég alltaf vera bestur þegar ég var yngri og lagði þá sjálfsagt meira á mig en aðrir” Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Wolves í ensku úrvalsdeildinni.

Og hér er annað: “Ég tel að maður fæðist með einhverja hæfileika, en hjá mér eru þetta bara æfingar og æfingar. Ég hef æft mig sér frá því að ég var 10 ára ef ekki yngri” Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Sjáið þið mynstrið?

En þegar leikmenn voru spurðir af hverju liðið náði svona góðum árangri var athyglisvert að svarið “Samstilltur/Samheldinn hópur/liðsheild” fékk meira en helmingi fleiri stig en svarið sem kom í 2. sæti – “Margir mjög góðir leikmenn”. 40 mismunandi ástæður voru gefnar upp af leikmönnum fyrir árangri liðsins.

Leikmennirnir ólust upp hjá 22 mismunandi uppeldisfélögum. Allt frá Hrunamönnum og Ægi upp í Breiðablik. Fámenn og fjölmenn félög geta því bæði búið til afreksíþróttafólk. Er leikmenn urðu eldri fóru þeir í stærri félögin eða í atvinnumennsku.
Þessir 34 leikmenn höfðu leikið 772 landsleiki alls áður en kom að lokakeppninni. Ísland var með mjög reynt lið.

16 af leikmönnunum 34 höfðu leikið A-landsleik eða 47.1% hópsins. Það er mjög hátt hlutfall.
10 leikmenn höfðu leikið minna en sem samsvarar einu keppnistímabili í deild og bikar á Íslandi í meistaraflokki. Þeir voru nefnilega allir orðnir atvinnumenn í knattspyrnu erlendis áður en þeir komu upp í meistaraflokk.
91.3% leikmannanna byrjuðu að æfa knattspyrnu hjá félagi á aldrinum 4-6 ára. Þeir voru allir byrjaðir að æfa knattspyrnu 8 ára.
23 leikmenn ólust upp á höfuðborgarsvæðinu, 10 á landsbyggðinni (ÍA og Grindavík meðtalin) og 1 erlendis.
5 leikmenn höfðu eingöngu æft knattspyrnu en 18 leikmenn höfðu æft aðrar íþróttagreinar en mislengi. Algengustu greinarnar voru körfubolti, handbolti og frjálsar íþróttir. Flestir hættu í þessum greinum á aldrinum 12-15 ára og allir voru hættir í öllu nema fótbolta þegar þeir voru orðnir 16 ára.

Hverjir eru mikilvægustu eiginleikarnir sem knattspyrnumaður þarf til að ná í fremstu röð að mati leikmannanna? Þeir svöruðu ( í réttri röð): Metnaður, hugarfar, agi, æfa aukalega, sjálfstraust, vilji/viljastyrkur og andlegur styrkur. Hvar stendur þú í þessum þáttum sem íþróttamaður eða íþróttakona? Ef þú ert þjálfari, hversu góður ertu að kenna leikmönnunum þínum þessa þætti? Tókstu eftir því hve margir þeirra eru hugarfarslegir en ekki líkamlegir? Í hvað eyðir þú æfingartímanum þínum? Leikmenn nefndu 43 mismunandi eiginleika.

Dæmi um svar leikmanns: ““Þessir eiginleikar skilja að afreksmenn frá meðalmönnum… Mikilvægasti eiginleikinn er sjálfstraust, það er erfitt að ná árangri án þess að hafa trú á eigin getu. Af hverju ættu aðrir að hafa trú á þér þegar þú hefur hana ekki sjálfur? Agi finnst mér mjög mikilvægur og sértaklega þegar þú ert kominn lengra. Metnaður – því enginn vinnur vinnuna fyrir þig, aukaæfingar, mataræði og fleira eru hlutir sem þú verður sjálfur að sjá um. Sigurvilji, keppnisskap og að hata að tapa er nauðsynlegt og hlutur sem drífur mann áfram. Virkar betur en nokkur orkudrykkur mun nokkurn tímann gera. Að þola mótlæti er eiginleiki sem skilur jafnan að þá sem meika það og hina. Það er auðvelt þegar vel gengur en margir brotna ef eitthvað bjátar á. Þeir sem hins vegar þola mótlætið koma jafnan sterkari út úr því.

Varðandi það hvort þetta er knattspyrnuhallarkynslóðin eða ekki mun ég skrifa sér grein. Svo og um margar aðrar áhugaverðar niðurstöður úr þessari rannsókn.

Hér eru niðurstöðurnar í megindráttum: Leikmenn U-21 landsliðsins byrjuðu nær allir á aldrinum 4-6 ára að æfa fótbolta, spiluðu langflestir upp fyrir sig á barns- og/eða unglingsárum, æfðu mikið eða mjög mikið aukalega utan hefðbundinna æfingatíma og prófuðu 1-2 aðrar íþróttagreinar (karfa, handbolti eða frjálsar vinsælust) en sneru sér svo alfarið að knattspyrnu þegar þeir voru 12-15 ára eða í síðasta lagi 16 ára gamlir.

Það er er nánast undantekning að U-21 landsliðsmaður sé fæddur á síðustu 3 mánuðum ársins (fæðingardagsáhrif). Þeir voru yfirleitt í A-liðinu í yngri flokkum og um 2/3 þeirra sköruðu ekki fram úr sem börn (voru ekki barnastjörnur). Flestir þeirra koma frá Stór-Reykjavíkurvæðinu.

Áður en ég gerði þessa rannsókn fannst mér almenna skoðunin innan knattspyrnunnar vera sú að ungir leikmenn ættu ekki að fara út snemma heldur spila lengur á Íslandi. Það má vel vera að það sé rétt upp að ákveðnu marki. En ég sé ekki betur en að leikmenn eins og Gylfi Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson og fleiri sem fóru ungir út í atvinnumennsku séu á góðri leið með að afsanna það.

siggiraggi.is
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
fræðslustjóri KSÍ
A-landsliðsþjálfari kvenna
Athugasemdir
banner
banner
banner