„Allt annað en í fyrra"
Breiðhyltingurinn Gunnar Jarl Jónsson er besti dómari Pepsi-deildarinnar í ár að mati Fótbolta.net. Gunnar stóð upp úr á tímabili þar sem dómgæslan var annars mjög góð.
„Ég er mjög sáttur við sumarið. Þetta er allt annað en í fyrra þar sem ég var ekki upp á mitt besta. Ég æfði mjög vel í vetur og undirbjó mig fyrir sumarið," segir Gunnar.
„Það hefði verið hægt að velja alla dómara deildarinnar. Dómgæslan hefur verið mjög góð í sumar að mínu mati og líklega sú besta í mörg ár."
„Ég held að langflestir geti verið sammála um að dómgæslan í Pepsi-deildinni í sumar hafi verið í toppmálum og dómarar almennt lítið í umræðunni sem er bara jákvætt."
Gunnar Jarl er einn fremsti dómari Íslands en í fyrra var hann settur á lista yfir FIFA-dómara.
Athugasemdir