Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 27. september 2012 13:45
Fótbolti.net
Leikmaður ársins - Freyr Bjarnason (FH)
,,Sé enga ástæðu til að hætta"
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Freyr Bjarnason, varnarmaður FH, er leikmaður ársins í Pepsi-deildinni að mati Fótbolta.net. Freyr hefur verið eins og klettur í vörn Íslandsmeistaranna í sumar.

,,Þetta er mjög óvænt en ég er gríðarlega ánægður," sagði Freyr við Fótbolta.net þegar hann fékk að heyra af valinu í dag.

,,Þetta er eitt af allra bestu tímabilum mínum. Ég var meira í leiðandi hlutverki núna en áður og þurfti svolítið að nýta reynsluna og miðla til annarra. Vörnin er búin að vera mjög sterk í sumar og það hefur verið gott að vinna með þessum strákum."

Freyr fagnaði 35 ára afmæli sínu í sumar og líkaminn er ekki jafn ferskur og hann var áður. Freyr og Bjarki Gunnlaugsson mæta fyrr á æfingar hjá FH til að undirbúa líkamann fyrir átökin þar.

,,Við mætum áður en upphitunin byrjar hjá okkur. Við erum með rúllur sem við rúllum okkur á og gerum okkur klára. Eftir æfingar er maður síðan duglegur að fara í ísbað og þetta hjálpar allt til. Maður þarf að passa mjög vel upp á líkamann."

Freyr er ákveðinn í að taka að minnsta kosti eitt tímabil með FH-ingum í viðbót áður en skórnir fara á hilluna frægu.

,,Ég stefni á að taka eitt ár í viðbót. Það er búið að ganga það vel núna að ég tími því einfaldlega ekki að hætta. Það er gaman að vera í þessu liði, þetta eru frábærir strákar og ég sé enga ástæðu til þess að hætta," sagði Freyr að lokum.
Athugasemdir
banner