Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 09. nóvember 2012 12:30
Magnús Már Einarsson
George Elokobi í einkaviðtali: Ég verð að koma til Íslands
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
George Elokobi, leikmaður Wolves, er í uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum. Þessi helmassaði vinstri bakvörður hefur verið fastagestur í Sunnudagsmessunni á Stöð 2 Sport og hrifið marga með frammistöðu sinni. Fótbolti.net náði einkaviðtali við Elokobi í vikunni en hann er þessa stundina að jafna sig eftir að hafa orðið fyrir alvarlegum ökklameiðslum á dögunum.

Það kom Elokobi ekki í opna skjöldu þegar Fótbolti.net náði tali af honum en hann hefur heyrt af aðdáendahópi sínum á Íslandi.

,,Ég komst að þessu þegar ég talaði við Björn (Bergmann Sigurðarson) og Eggert (Gunnþór Jónsson). Ég vissi ekkert af þessu áður en það er gaman að vita að ég eigi stóran stuðningsmannahóp á Íslandi,“ sagði Elokobi.

,,Ég varð steinhissa þegar þeir sögðu mér frá þessu og hugsaði ‚vá, ég þarf að fara til Íslands einn daginn og hitta aðdáendur mína þar.‘ Ég verð að koma einhverntímann til Íslands í frí til að sjá hvernig landið er og kynnast öðruvísi menningu,“ bætti Elokobi við en hann veit lítið um land og þjóð.

,,Í hreinskilni sagt þá veit ég ekki mikið um Ísland. Ég veit að þetta er ekki stórt land en það er gott að búa þar. Ég veit að það eru eldlfjöll þar en ég veit hins vegar ekki marga hluti um sögu landsins.“

Vill fá Björn og Eggert sem fararstjóra:
Margir Íslendingar fylgjast með Elokboi á Twitter og hann hefur fengið skilaboð frá íslenskum aðdáendum þar.

,,Ég hef fengið nokkur skilaboð. Þegar ég meiddist fékk ég mikið af skilaboðum frá íslenskum aðdáendum sem sögðu mér að vera sterkur áfram, óskuðu mér góðs bata og sögðu mér að ná mér sem fyrst. Ég svaraði þeim og þakkaði þeim fyrir hvatninguna.“

Elokobi er á mála hjá Wolves en hann kann mjög vel að meta íslensku liðsfélaga sína Björn Bergmann og Eggert Gunnþór.

,,Ég kann mjög vel við þá. Þeir eru mjög rólegir en líka fyndnir. Þeir leggja mjög hart að sér og eru góðir leikmenn. Þeir þurfa að koma með mér til Íslands til að ég geti hitt fjölskyldu þeirra og vini. Þeir geta verið fararstjórar fyrir mig þar,“ sagði Elokobi skellihlægjandi.

Fer tvisvar í vikuna í ræktina:
Elokobi er gífurlega líkamlega sterkur og erfitt er að finna atvinnumann í knattspyrnu sem er með meiri vöðvamassa en hann. Þrátt fyrir þennan gífurlega líkamlega styrk þá er Elokobi ekki mikið að lyfta lóðum.

,,Ég eyði aðallega tíma í líkamsræktinni á sumrin til að ná líkamanum í rétta stærð fyrir tímabilið. Á meðan á tímabilinu stendur fer ég ekki mikið í ræktina því ég er náttúrulega sterkur. Ég fer því tvisvar á viku á meðan tímabilið er í gangi. Ég þarf ekki að fara meira í ræktina því ef að ég geri það þá verð ég auðveldlega stærri og sterkari,“ sagði Elokobi en þjálfarar hans vilja ekki að hann sé mikið í lóðunum.

,,Þolþjálfarinn og stjórinn hafa sagt mér að halda mig frá ræktinni því ég er of sterkur stundum og þegar ég fer í návígi við aðra leikmenn koma þeir illa út úr því.“

Ekki mætt líkamlega sterkari leikmanni:
Þegar Elokobi tekur á lóðunum fer hann meðal annars í bekkpressu. ,,Það mesta sem ég hef tekið í bekkpressu er 130 kíló. Það er nokkuð gott og þegar ég næ því þá finn ég hvernig ég stækka. Peysurnar mínar og stuttermabolirnir verða þröngir og þá hugsa ég með mér að ég verði að slaka aðeins á.“

Sjálfur segist Elokobi ekki ennþá hafa mætt leikmanni í enska boltanum sem er líkamlega sterkari en hann sjálfur.

,,Þetta er andlegt og í höfði mínu þá hugsa ég um það að enginn geti haft betur gegn mér þegar kemur að líkamlegri baráttu á vellinum. Ef það gerist í leik þá er ég aldrei ánægður. Meira segja þegar ég var unglingur þá vildi ég spila gegn stærri og sterkari leikmönnum og það hefur kannski gert mig jafn sterkan og ég er. Ég hef ekki ennþá mætt sterkari leikmanni í ensku úrvalsdeildinni eða Championship deildinni.“

Ætlar að snúa aftur á þessu tímabili:
Elokobi er sem stendur frá keppni vegna meiðsla en hann ökklabrotnaði illa á dögunum skömmu eftir að hafa gengið í raðir Bristol City á láni. Elokobi stefnir á að snúa aftur á þessu tímabili.

,,Meiðslin voru alvarleg svo ég verð frá keppni í fjóra til fimm mánuði. Ég þakka guði fyrir að aðgerðin gekk mjög vel og það gengur allt mjög vel í augnablikinu. Ég er mjög jákvæður og er fljótur að jafna mig. Ég hef trú á því að ég nái að snúa aftur fyrir lok tímabilsins en ég ætla að taka minn tíma og passa upp á að ég sé í lagi þegar ég kem til baka,“
Athugasemdir
banner
banner
banner