Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 27. maí 2013 17:30
Magnús Már Einarsson
Fór af hliðarlínunni á fæðingardeild í miðjum leik
Varð faðir í þriðja skipti á meðan á leik stóð
Einar Þorvaldur Eyjólfsson.
Einar Þorvaldur Eyjólfsson.
Mynd: Úr einkasafni
Lið Skallagríms.
Lið Skallagríms.
Mynd: Skallagrímur
Einar Þorvaldur Eyjólfsson, þjálfari Skallagríms, náði einungis að stýra liðinu í þrjár mínútur í fyrsta leik tímabilsins í 4. deildinni gegn Stál-Úlfi áður en hann þurfti að fara með eiginkonu sinni upp á fæðingardeild.

Leikurinn var síðan ennþá í gangi þegar hún fæddi stúlku í heiminn en um er að ræða þriðja barn þeirra.

,,Það voru þrjár mínútur búnar af leiknum og maður var kominn í gír að fylgjast með þegar konan hringdi í mig og sagði að allt væri komið af stað. Ég vissi ekki hvort hún væri að djóka í mér en ég áttaði mig á því að það var einhver alvara á bakvið þetta," sagði Einar við Fótbolta.net í dag.

,,Ég rétti Sölva (Gylfasyni) aðstoðarþjálfara stílabókina og síðan tók ég sprett inn í búningsklefa, náði í dótið og fór út í bíl til að ná í konuna. Við þurftum að keyra á Akranes og vorum mætt þangað tíu mínútur yfir níu. Hún var síðan búin að eiga hálf tíu. Maður hefði nánast getað náð restinni af leiknum," sagði Einar hlæjandi.

Varamennirnir gáttaðir:
Barnið fæddist viku fyrir settan dag en Einar var klár með símann á hliðarlínunni í leiknum.

,,Ég sagði við Sölva daginn áður að það gæti allt gerst. Ég var búinn að nefna þetta við hann en það voru nokkrir dagar í þetta svo maður bjóst ekki við þessu. Strákarnir á bekknum vissu samt ekkert hvað var í gangi þegar ég hljóp í burtu, þeir vissu ekkert af þessu."

Eina liðið til að vinna leik í öllum deildum:
Skallagrímur er með lið í deildarkeppni á nýjan leik í ár eftir að hafa ekki verið með í fyrra. Búið er að fjölga deildum og með 3-1 sigri á Stál-úlfi komst Skallagrímur í sögubækurnar fyrir að vera fyrsta liðið til að vinna leik í öllum fimm deildunum á Íslandi.

,,Við erum eina liðið í þessari deild sem hefur leikið í úrvalsdeild. Það eru margir fyrrum leikmenn sem ég veit af sem langar að eiga það á ferilskránni að hafa spilað í öllum deildum með sama liðinu. Það eru margir leikmenn sem hafa áhuga á að fara aftur af stað," segir Einar en stemningin í Borgarnesi er góð þessa dagana.

,,Við vorum ekki með í fyrra og markmiðið núna er að hafa gaman að þessu og byggja upp grunn til að geta verið með lið aftur á næsta ári. Það var frábær stemning á leiknum. Það voru 170 manns sem hefur ekki gerst í mörg ár. Uppistaðan í liðinu eru heimastrákar og það er jákvæð stemning fyrir þessu í bænum."
Athugasemdir
banner
banner
banner