Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 29. júlí 2013 10:40
Magnús Már Einarsson
Aron Jóhannsson velur bandaríska landsliðið (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Jóhannsson hefur ákveðið að velja að leika með bandaríska landsliðinu í framtíðinni. Aron fæddist í Bandaríkjunum og hefur því getað valið hvort hann spilar fyrir Ísland eða Bandaríkin.

Eftir að hafa legið undir feld undanfarna mánuði hefur Aron nú ákveðið að gefa kost á sér í bandaríska landsliðið undir stjórn Jurgen Klinsmann.

,,Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í landslið Bandaríkjanna í knattspyrnu. Val mitt hefur staðið á milli þess að spila með íslenska landsliðinu eða því bandaríska þar sem ég er með tvöfalt ríkisfang," sagði Aron í fréttatilkynningu í dag.

,,Ákvörðunin var ekki auðveld eða tekin í flýti enda stóð valið á milli tveggja góðra landsliða."

,,Ég þakka landsliðsþjálfurum Íslands fyrir áhuga þeirra og óska íslenska landsliðinu alls hins besta í framtíðinni.”


Aron lék tíu U21 árs landsleiki fyrir Íslands hönd en hann getur þrátt fyrir það leikið með A-landsliði Bandaríkjanna.

Hinn 22 ára gamli Aron getur byrjað strax að leika með landsliði Bandaríkjanna og fyrsti leikur hans gæti verið gegn Bosníu/Herzegóvínu þann 14. ágúst.

Í september gæti Aron spilað með Bandaríkjunum í undankeppni HM en liðið er á toppi riðilsins í baráttunni um sæti í keppninni í Brasilíu næsta sumar. Ágætis líkur eru því á að Aron spili á HM með Bandaríkjamönnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner