Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fös 04. nóvember 2022 07:15
Elvar Geir Magnússon
16 dagar í HM - HM í Svíþjóð 1958
Pele steig fram á sviðið
Pele og Gústaf Svíakonungur.
Pele og Gústaf Svíakonungur.
Mynd: Getty Images
Garrincha ógnaði með hraða sínum og krafti.
Garrincha ógnaði með hraða sínum og krafti.
Mynd: Getty Images
Brasilía vann HM í fyrsta sinn.
Brasilía vann HM í fyrsta sinn.
Mynd: Getty Images
Markakóngurinn Just Fontaine borinn á kóngastóli.
Markakóngurinn Just Fontaine borinn á kóngastóli.
Mynd: Getty Images
Brasilíumenn fagna á Råsunda leikvangnum.
Brasilíumenn fagna á Råsunda leikvangnum.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM í Svíþjóð 1958
Heimsmeistarakeppnin í Svíþjóð var leikin í ellefu borgum. Þetta er keppnin þar sem sjálfur Pele kom fram á sjónarsviðið, sautján ára gamall. Fyrir mótið var talað um að miðjumaðurinn Didi væri kominn yfir sitt besta og Pele væri of ungur, þeir væru veikir hlekkir í liði Brasilíu. En annað kom svo sannarlega á daginn.

Frakkar rúlluðu yfir Íslendinga
Fyrir þetta mót tóku Íslendingar í fyrsta sinn þátt í undankeppninni og lentu í undanriðli með gríðarlega sterkum liðum Frakklands og Belgíu. Franska liðið var gríðarlega öflugt og vann riðilinn eftir að hafa lagt Ísland 8-0 á heimavelli og svo 5-1 á Laugardalsvelli.

Ísland tapaði leikjum sínum gegn Belgíu 3-6 og 2-5. Ríkharður Jónsson og Þórður Þórðarson skoruðu öll mörk Íslands í riðlinum en þjálfari var Englendingurinn Alexander Weir sem þjálfaði Val.

Flugslys veikti enska liðið mikið
En yfir í sjálfa lokakeppnina. Í fyrsta skipti tóku fjögur lið frá Bretlandseyjum þátt í lokakeppni HM. Það voru England, Wales, Skotland og Norður-Írland.

Snemma árs 1958 átti hið fræga München-flygslys sér stað. Lið Manchester United lenti í þessu hörmulega slysi þar sem nokkrir af bestu leikmönnum Englands létust. Þar á meðal Roger Byrne, Duncan Edwards og Tommy Taylor.

Englendingum tókst ekki að komast í 8-liða úrslitin í Svíþjóð 1958. Þeir gerðu 0-0 jafntefli við Brasilíu í riðlinum en það var fyrsta markalausa jafnteflið í lokakeppni HM.

Mikilvægasta markið á ferli Pele
Svíar voru með sterkt lið þar sem fremstir í flokki voru fimm leikmenn sem léku í ítölsku deildinni. Svíar létu finna fyrir sér á heimavelli, fengu frekar auðveldan riðil og lögðu svo Sovétmenn í 8-liða úrslitum. Í undanúrslitum vannst svo 3-1 sigur gegn Þýskalandi en Þjóðverjar kvörtuðu yfir grófri spilamennsku heimamanna.

Brasilíumenn fóru í gegnum riðlakeppnina án þess að bíða ósigur. Þeir unnu 1-0 sigur gegn Wales 1-0 en Pele skoraði sigurmarkið. Hefur hann talað um markið sem það mikilvægasta á ferli sínum. Í undanúrslitum skoraði hann svo þrennu í 5-2 sigri gegn Frakklandi.

Úrslitaleikur: Svíþjóð 2 - 5 Brasilía
1-0 Nils Liedholm ('5)
1-1 Vava ('9)
1-2 Vava ('32)
1-3 Pele ('55)
1-4 Mario Zagallo ('68)
2-4 Agne Simonsson ('80)
2-5 Pele ('90)

George Raynor, þjálfari Svía, sagði fyrir úrslitaleikinn að mikilvægt væri að ná að skora fyrsta markið. Brasilíumenn myndu ekki þola þá pressu að lenda undir. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Svíar tóku forystuna eftir fimm mínútna leik.

En Brassarnir þoldu pressuna svo sannarlega. Leiddu í hálfleik og unnu á undan 5-2 sigur. Þeir byrjuðu í 4-2-4 leikkerfi sem þeir höfðu spilað á mótinu en eftir að þeir breyttu í 4-3-3 áttu Svíar engin svör.

Talað er um að brasilíska liðið á þessu móti sé jafnvel það besta í sögu HM. Hingað til er þetta eina mótið sem haldið hefur verið í Evrópu og land utan Evrópu náð að vinna. Heima í Brasilíu rifnaði fólk úr stolti enda liðið Heimsmeistari í fyrsta sinn. Forseti Brasilíu sendi herflugvélar til móts við farþegavélina sem flaug liðinu heim til Ríó.

Leikmaðurinn: Pele
Didi var valinn besti maður mótsins en þegar það er rifjað upp er Pele maðurinn sem allir tala um. Meiðsli komu í veg fyrir að Pele gæti leikið í fyrstu tveimur leikjum Brasilíu á mótinu en eftir það fór hann á kostum. Þessi ungi leikmaður skoraði sex mörk og brast í grát þegar flautað var af í úrslitaleiknum.

Markakóngurinn: Just Fontaine
Frakkinn Fontaine setti markamet með því að skora þrettán mörk á mótinu. Hann skoraði í öllum sex leikjunum sem hann lék á mótinu en Frakkar tóku bronsverðlaunin. Fontaine lék á ferli sínum 21 landsleik og skoraði alls 30 mörk. Einn besti leikmaður sem Frakkland hefur átt.

Leikvangurinn: Råsunda Stadium
Råsunda leikvangurinn í Stokkhólmi var vettvangur úrslitaleiksins. Leikvangurinn var opnaður 1937 en gekk í gegnum talsverðar endurbætur fyrir HM. Árið 1995 varð hann fyrsti leikvangurinn sem hefur hýst úrslitaleiki bæði í karla- og kvennaflokki á HM. Hljómsveitin Queen hélt fræga tónleika á vellinum. Råsunda hefur fengið að víkja fyrir skrifstofuhúsnæði en nýr og glæsilegur leikvangur, Friends Arena, var opnaður 2009 í Stokkhólmi.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954

Sjáðu Pele fara á kostum:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner