Dean Martin er á förum frá ÍBV en þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í dag. Hinn 42 ára gamli Dean var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Eyjamönnum í sumar en nú er ljóst að hann er á förum eftir að Jóhannes Harðarson var ráðinn þjálfari liðsins.
,,Með nýjum manni kemur nýtt fólk svo ég reikna með að ganga frá starfslokasamning við ÍBV," sagði Dean við Fótbolta.net í dag en Eyjamenn ræddu við hann um taka við af Sigurði Ragnari. Hann fékk hins vegar ekki formlegt tilboð frá félaginu.
,,Ég fór í starfsviðtal en ég fékk ekki tilboð. Þeir spurðu hvort ég væri tilbúinn að taka við og ég sagðist vera tilbúinn að skoða tilboð frá þeim. Það koma aldrei tilboð svo það fór ekkert lengra."
Dean segist ekki vera búinn að ákveða hvort hann haldi áfram að spila eða einbeiti sér að þjálfun. ,,Ég er ekkert byrjaður að skoða það. Ég hef bara ástríðu fyrir fótbolta og er opinn fyrir öllu."
Dean spilaði 16 leiki í Pepsi-deildinni í sumar en hann hefur áður leikið með ÍA og KA hér á landi auk þess sem hann þjálfaði síðarnefnda liðið um tíma.
Athugasemdir