Sigurður Ragnar Eyjólfsson kom í gær aftur til Íslands eftir að hafa farið með eiginkonu sinni til Ástralíu að skoða aðstæður hjá ástralska knattspyrnusambandinu.
Ástralska knattspyrnusambandið vill fá Sigurð Ragnar til starfa sem aðstoðar tæknilegur ráðgjafi. Norska félagið Lilleström vill fá Sigurð Ragnar sem aðstoðarþjálfara með Rúnari Kristinssyni og því þarf hann að velja á milli tveggja ólíkra starfa.
,,Við höfum allar forsendur til að taka ákvörðun núna. Þetta eru tveir góðir valkostir en það er erfitt að gera upp á milli," sagði Sigurður Ragnar við Fótbolta.net í dag.
,,Ég fór til Ástralíu og geri mér betur gein fyrir starfinu eftir það. Það er gríðarlega spennandi og góður valkostur. Það er líka spennandi að starfa við þjálfun hjá Lilleström með Rúna og þjálfa atvinnumenn. Mér finnst skemmtilegast að þjálfa úti á velli."
24 tíma flug
Ef Sigurður Ragnar semur við ástralska knattspyrnusambandið mun hann flytja ásamt fjölskyldu sinni til Sidney.
,,Höfuðstöðvarnar eru í Sidney en það er mikið um ferðalög og ég yrði mikið fjarverandi frá fjölskyldunni. Þetta er mjög vel launað starf og góður samningur sem er í boði."
,,Þetta er hinumegin á hnettinum og við vorum 24 tíma á leiðinni þangað í flugi. Þetta er langt í burtu. Við eigum tvö börn og maður þarf að vega þetta og meta út frá fjölskyldunni líka en það er ljóst að við flytjum á annan hvorn staðinn í janúar."
Hinn 57 ára gamli Eric Abrams er tæknilegur ráðgjafi hjá ástralska knattspyrnusambandinu en ef Sigurður Ragnar tekur við sem aðstoðar tæknilegur ráðgjafi gæti hann tekið við starfi Abrams í framtíðinni.
,,Þeir horfa til þess að ég geti síðar tekið við af honum. Þeir eru að bjóða mér tveggja ára asamning með möguleika á tveggja ára framlengingu," sagði Sigurður Ragnar.
Uppgangurinn í íslenska boltanum hjálpar
Sigurður Ragnar sótti í sumar um að verða tæknilegur ráðgjafi hjá ástralska knattspyrnusambandinu og því vissi sambandið af áhuga hans og ákvað að leita til hans núna.
Hann segir að athyglin sem íslensk knattspyrna hefur vakið á heimsvísu að undanförnu hafi einnig hjálpað til en Sigurður Ragnar starfaði áður sem fræðslustjóri hjá KSÍ.
,,Íslensk knattspyrna er að vekja athygli og íslenska landsliðið er komið hátt á heimslistanum. Fólk fer að horfa til uppbyggingarinnra á Íslandi síðustu 10-12 árin og ég held að það hafi hjálpað mér. Í þessu starfi vildu þeir fá mann sem hefur átt þátt í uppbyggingu hjá knattspyrnusambandi og hefði þjálfað á háu leveli. Það var margt sem passaði inn í þetta hjá mér," sagði Sigurður Ragnar.
Athugasemdir