Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 11. febrúar 2015 12:09
Magnús Már Einarsson
Rasmus Christiansen spilar með KR í sumar (Staðfest)
Rasmus Christiansen.
Rasmus Christiansen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen mun spila með KR í Pepsi-deildinni í sumar en hann staðfestir þetta í samtali við danska fjölmiðla í dag.

Rasmus samþykkti tveggja ára samning við KR í nóvember en hann var þó með klásúlu um að geta samið við félag utan Íslands fram í fyrstu viku febrúar.

Þessi 25 ára gamli leikmaður hefur einnig verið að jafna sig eftir að hafa slitið krossband en nú er hann orðinn góður af þeim meiðslum.

,,Ég skrifaði undir í nóvember en þá með vissum fyrirvara. Þeir töluðu fyrst við mig í fyrrasumar þó að þeir hafi vitað að ég væri með slitið krossband," sagði Rasmus við bold.dk.

Rasmus var síðast á mála hjá Ull/Kisa í Noregi en hann lék með ÍBV frá 2010 til 2012.

,,KR er félag sem fólk annað hvort elskar eða hatar. Áður en ég fór til Noregs vildi mitt gamla félag ÍBV frekar að ég myndi fara í Stjörnuna, FH eða eitthvað annað félag en KR."

Rasmus reiknar með að verða klár í fyrsta leik gegn FH í maí. ,,Markmið okkar er að verða meistari. Þannig er það hjá KR. Við viljum berjast um titilinn og standa okkur vel í Evrópukeppni."
Athugasemdir
banner