Um tveimur árum eftir að hafa verið dæmt gjaldþrota er gamla stórveldið Fiorentina snúið aftur meðal þeirra bestu á Ítalíu. Liðið kom upp úr Seríu-B upp í A-deildina síðasta leiktímabil ásamt Livorno, Cagliari, Atalanta, Palermo og Messina. Liðið er líklegast til afreka af þessum liðum þrátt fyrir að vera heppið að komast upp síðasta tímabil.
Fiorentina endaði í sjötta sæti í Seríu-B en náði naumlega að klóra sér aftur upp í Seríu-A með því að leggja Perugia að velli í aukaleikjum. Liðið hefur tvívegis orðið meistari á Ítalíu og er líklegast til að spjara sig best af nýliðunum fyrir þetta tímabil. Ástæðan er sú að forráðamenn liðsins hafa haft í nógu að snúast á leikmannamarkaðnum.
Palermo hefur kannski ítalska landsliðsmanninn Luca Toni og Cagliari er með Gianfrano Zola, en af þeim 29 leikmönnum sem Emiliano Mondonico þjálfari Fiorentina hefur úr að velja eru 15 þeirra nýir. Liðið hefur krækt í sóknarmennina ungu Javier Portillo frá Real Madrid og Fabrizio Miccoli frá Juventus. Einnig japönsku stórstjörnuna Hidetoshi Nakata sem líklega mun spila lykilhlutverk á miðju liðsins.
Margir telja að Fiorentina muni verða í baráttu um Evrópusæti en spennandi verður að sjá hvernig Mondonico tekst að skapa sterka liðsheild úr öllum þessum nýju leikmönnum. Hann er orðinn 57 ára og bestu ár hans sem þjálfari voru fyrir löngu síðan. Í síðustu tvö skipti sem hann stýrði liði í efstu deild féllu þau bæði á endanum.
Ef Fiorentina lendir í vandræðum á þessu tímabili er þó ljóst að stuðningsmenn liðsins munu styðja þá allan tímann. Þrátt fyrir öll vandræðin undanfarin ár hafa þeir verið félaginu mjög tryggir og t.d. voru 21.000 ársmiðahafar hjá félaginu síðasta tímabil. Það er meira en hjá langflestum liðunum í Seríu-A.
Keppni í efstu deild á Ítalíu hefst um helgina og að sjálfsögðu verður Fótbolti.net á tánum og fylgist grannt með.
Athugasemdir