Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   þri 02. júní 2015 10:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Áhugaleysi kvenna
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Sólrún Sigvaldadóttir.
Sólrún Sigvaldadóttir.
Mynd: Úr einkasafni
Úr leik í Pepsi-deild kvenna í sumar.
Úr leik í Pepsi-deild kvenna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reglulega heyrast háværar raddir sem kvarta yfir því að umfjöllun fjölmiðla um kvennaknattspyrnu sé mun minni og lélegri heldur en umfjöllun um karlaknattspyrnu.

Sirka 97% íþróttafréttamanna og annarra sem skrifa um knattspyrnu á hinum ýmsu miðlum eru karlkyns. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ástæðan fyrir því að hlutfallið sé svona er ekki vegna þess að konur fái ekki að vera með, heldur sú að konur sækjast ekki eftir því að vera með.

Í gærkvöldi fóru fram þrír leikir í Pepsi-deild kvenna, fjórir fjölmiðlar voru með lýsingar og umfjallanir frá þessum leikjum, Fótbolti.net, SportTV, Mbl.is og Vísir.is. Í öllum tilfellum voru það karlmenn sem voru mættir að lýsa leikjunum og skrifa um þá fréttir. Og nú spyr ég: Hvernig getum við konur krafist þess að karlar fjalli um kvennaknattspyrnu þegar við nennum því ekki sjálfar? Og ekki nennum við að lesa um hana heldur? Fréttir um Pepsi-deild kvenna fá hlutfallslega miklu, miklu færri flettingar á miðlunum heldur en til dæmis fréttir um 4.deild karla. Sorglegt.

Hvernig væri að hætta að kvarta yfir því að aðrir fjalli ekki um kvennafótbolta og standa í staðinn uppúr sófanum og mæta sjálfar á leiki, já eða skrifa um þá? Mætingin á leiki í Pepsi-deild og 1.deild kvenna er vægast sagt vandræðaleg. Á leik KR-Keflavíkur í Pepsideild karla voru um 1500 áhorfendur. Vallarþulurinn minnti gesti reglulega á leik kvennaliðsins daginn eftir. Það skilaði ekki betri árangri en það að um 25 áhorfendur voru á leik KR og Þórs/KA í Pepsideild kvenna í gærkvöldi.

Staðreyndin er sú að sárafáar stelpur í yngri flokkum mæta að horfa á leiki hjá Meistaraflokki kvenna. Ég þjálfa til dæmis ungar stelpur í fótbolta. Ég hef séð miklu fleiri af þeim á leikjum karlaliðssins heldur en kvennaliðssins. Og hver ætli ástæðan sé? Í flestum tilfellum eru það pabbarnir sem taka þær með á karlaleikina. Hvar eru mömmurnar þegar kvennaleikirnir eru?

Þessu þarf að breyta, stelpur þurfa að eiga góða fyrirmyndir í fótbolta. Ef ungar fótboltastelpur eru sífellt teknar með að horfa á karlaleiki en enga kvennaleiki, hver eru þá skilaboðin sem þær fá? Að það nenni enginn að horfa á þær spila?

Ég kalla hér með eftir meiri áhuga kvenna á kvennaknattspyrnu! Fjölmiðlun er nefnilega spurning um eftirspurn. Með auknum áhuga, fleiri áhorfendum og með því að búa til flottar fyrirmyndir fyrir ungar fótboltastelpur þá skapast meiri eftirspurn eftir umfjöllun um kvennaboltann og ég efast ekki um að fjölmiðlar muni svara þeirri eftirspurn þegar þar að kemur.

Sólrún Sigvaldadóttir
Félags- og Fjölmiðlafræðingur og Knattspyrnuþjálfari hjá Víking
Athugasemdir
banner
banner