Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson hafa verið ráðnir þjálfarar Keflvíkinga en þetta staðfesti Þorsteinn Magnússon formaður knattspyrnudeildar í samtali við Fótbolta.net nú rétt í þessu.
Gunnar Magnús Jónsson verður þeim til aðstoðar en hann var aðstoðarmaður Kristjáns Guðmundssonar ásamt Mána Þorkelssyni. Kristján og Máni voru reknir í gær eins og flestir lesendur vita.
Þorsteinn segir mikla ánægju með að fá Hauk Inga aftur til Keflavíkur.
„Þetta eru tveir hrikalega flottir gæjar og algjörir framtíðarþjálfarar. Jóhann hefur verið að starfa fyrir yngri flokkana hjá okkur og það er gríðarlega mikil ánægja með hans störf," segir Þorsteinn en samningur þeirra er út sumarið til að byrja með.
Haukur Ingi lætur af störfum sem yfirþjálfari yngri flokka Fylkis en hann er uppalinn Keflvíkingur og fyrrum leikmaður félagsins. Hann var aðstoðarþjálfari Ásmundar Arnarssonar hjá Árbæjarliðinu. Þá er hann sálfræðimenntaður.
Jóhann Birnir er leikmaður Keflavíkur og hefur komið við sögu í fim maf sex fyrstu leikjum Keflavíkur í Pepsi-deildinni á þessu tímabili.
Keflavík hefur byrjað tímabilið illa, er aðeins með eitt stig og féll úr bikarnum eftir 0-5 tap gegn KR. Liðið mætir ÍBV í botnbaráttuslag á mánudag.
Athugasemdir