Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 04. október 2004 16:46
Magnús Már Einarsson
"Álíka stór og Valtýr - En fljótari! Viðtal við Loga
Mynd: Fótbolti.net - Hjalti Þór Hreinsson
Logi Ólafsson og Ásgeir Sigurvinsson landsliðsþjálfarar Íslands tilkynntu í dag 19-manna hóp fyrir leikina gegn Möltu og Svíðþjóð í undankeppni HM. Fótbolti.net var á blaðamannafundinum þar sem að þetta var tilkynnt í dag og tókum við viðtal við Loga Ólafsson sem að var hinn hressasti.

Hvað þurfið þið helst að varast í leik Möltu?
Þrátt fyrir að þeir hafi tapað leiknum á móti Svíum 7-0 þá eru þeir samt sem áður að skapa sér 4-5 færi á móti Svíum. Þeir eru sterkari í sóknarleiknum heldur en í varnarleiknum. Þeir eru með mjög fljótan framherja og ágætan miðjumann sem að leggur mikið að boltum upp fyrir þennan Mifsud sem að leikur með Lilleström og er eldfljótur. Hann er svipaður á hæð og Valtýr Björn (Valtýsson íþróttafréttamaður). Mifsud er eldfljótur og sennilega fljótari en Valtýr. (Þarna skellir Logi upp úr og Valtýr Björn svarar um hæl að Mifsud hafi kannski hraðann en ekki jafngóðan leikskilning og hann).

En hjá Svíðþjóð eitthvað sérstakt sem að þarf að varast þar?
Það er margt sem að þarf að varast hjá Svíum þeir eru með skæðustu sóknarmenn í Evrópu innan sinna vébanda þannig að við þurfum að lagfæra okkar varnarleik. Við þurfum að vera heppnir því að við vitum að þeir munu skapa einhver færi á móti okkur. Við þurfum að lagfæra varnarleikinn og koma í veg fyrir það að við séum að fá á okkur þessi klaufamörk. Á því byggjast möguleikar okkar á móti Svíum að halda markinu hreinu og þá er aldrei að vita nema að við getum laumast fram í skjóli myrkurs.

Besti maður Íslandsmótsins "Svifnökkvinn" kom hann ekki til greina?
Við erum með ágætis miðjumenn í okkar hóp og Heimir Guðjónsson er eins og allir vita sem að hafa fylgst með mótinu góður leikmaður. Hann gæti á margan hátt hentað okkur en við erum með menn eins og Brynjar Björn Gunnarsson sem að er að spila í atvinnumennsku og hann er að leika þarna aftast á miðjunni og höfum við ákveðið að hafa hann þar fremur.

Hvað með mann eins og Bjarna Guðjónsson?
Jú jú við skoðuðum þann möguleika mjög mikið. Bjarni er inn og út úr liðinu hjá Coventry. Við fylgjumst með því og hann getur dottið inn í liðið hvenar sem er.

Stefán Gíslason var í hópnum seinast var hann ekki í myndinni núna?
Við ákváðum að taka Pétur Marteinsson frekar að þessu sinni. Stefán kom svolítið inn í þetta seinast vegna þess að Pétur var meiddur. Við erum ánægðir með frammistöðu Stefáns þegar að hann hefur verið með okkur svo hann heldur vonandi áfram að styrkja sig og verða betri.

Hvernig er formið á Þórði Guðjónssyni eftir meiðslin, gæti Guðmundur Sævarsson jafnvel komið beint inn í byrjunarliðið?
Ég get ekki svarað því ennþá. Við eigum eftir að fá leikmennina til landsins en við sjáum hvernig ástandið er á fyrstu æfingu sem að fer fram á miðvikudaginn. Samkvæmt því sem að við fréttum og í samtali við Þórð þá á hann að vera tilbúinn.

Eru annars allir heilir og frískir?
Já, Pétur Marteinsson var meiddur þegar að við vorum saman síðast en hann er byrjaður að spila og mun vonandi spila í kvöld gegn Landskrona. Þá ættu allir að vera heilir nema eins og kunnugt er þá meiddist Rúnar Kristinsson aftur.

Þetta hlýtur að vera gífurlegt áfall með Rúnar
Já, Rúnar sýndi það í leiknum á móti Ítölum að hann var búinn að fá lystina og löngunina aftur til að vera í íslenska liðinu. Þannig að það var frekar súrt í broti að þurfa að sjá á bak honum því að við höfðum bundið miklar vonir við hann.
Athugasemdir
banner
banner