„Því er ekki að leyna að ég þetta er starf sem ég hef hugsað um í mörg ár. Ég var mjög stoltur og ánægður að koma hér í fyrra með Tommy. Hér er ég öllum hnútum kunnugum og tel mig vita hvað þarf til," sagði Óli Stefán Flóventsson við Fótbolta.net í dag en hann hefur verið ráðinn aðalþjálfari Grindvíkinga fyrir næsta tímabil.
Óli Stefán spilaði með Grindavík nánast allan sinn feril og hann hefur nú tekið við liðinu.
Óli Stefán spilaði með Grindavík nánast allan sinn feril og hann hefur nú tekið við liðinu.
Óli Stefán var aðstoðarþjálfari á nýliðnu tímabili þegar Tommy Nielsen þjálfaði liðið. Grindvíkingar ákváðu að semja ekki áfram við Tommy og Óli hefur nú tekið við bílstjórasætinu.
„Okkar samstarf var mjög gott og Tommy er mjög flottur þjálfari sem á örugglega eftir að fá gott starf fljótlega," sagði Óli Stefán um Tommy en Grindavík endaði í 5. sæti undir þeirra stjórn í sumar. Óli vill styrkja hópinn fyrir næsta tímabil
„Við Tommy vorum að móta nýtt lið og búa til ákveðinn kjarna til að taka næstu skref með. Við vorum ánægðir með hvernig til tókst en nú þarf hins vegar að skoða mjög vel hvað þarf til þess að taka næsta skref. Við þurfum leikmenn inn sem gera okkar leikmenn betri og þurfa því að vera mjög góðir. Við erum að fara yfir þessi mál núna þannig að það skýrist á næstu dögum og vikum hvað verður," segir Óli og bætir við að Grindvíkingar eigi alltaf að stefna á úrvalsdeildarsæti.
„Grindavík hefur alla burði í það að vera á meðal þeirra bestu. Við eigum alltaf að horfa á okkur sem úrvalsdeildar lið og vinna nákvæmlega eins og þeir bestu gera. Á síðustu 22 árum hefur Grindavík verið fjórum sinnum í 1. deild."
Hinn þaulreyndi Milan Stefán Jankovic mun vera aðstoðarþjálfari með Óla Stefáni en hann þekkir allt inn og út í Grindavík.
„Við Jankó höfum þekkst síðan að hann kom hingað til lands árið 1991. Ég hjálpaði honum að læra Íslensku. Hann hefur þjálfað mig í að ég held 14 ár. Hann hefur alltaf hjálpað mér þegar ég hef leitað til hans í minni þjálfun. Það er enginn á Íslandi betri en hann úti á grasi og okkar hugmyndir ná vel saman. Þannig að ég er spenntur að vinna með karlinum," sagði Óli Stefán að lokum.
Athugasemdir