Pablo Punyed hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV en hann kemur til félagsins frá Stjörnunni. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi sem stendur yfir í Skútuvogi.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, sagði á fundinum að hann teldi sig vera að krækja í einn besta miðjumann Pepsi-deildarinnar. Pablo hefur einnig spilað sem bakvörður en er hugsaður á miðju Eyjaliðsins.
Pablo er landsliðsmaður El Salvador og hefur leikið fyrir Stjörnuna undanfarin tvö ár. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra.
2012 lék hann með Fjölni og svo með Fylki árið á eftir.
Viðtöl við hann og Bjarna koma inn á síðuna á eftir.
Fréttatilkynning ÍBV:
Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá samningi til 2ja ára við Pablo Punyed sem leikmaður mfl. karla ÍBV í knattspyrnu.
Pablo kemur til ÍBV frá Stjörnunni þar sem hann hefur leikið sl. tvö keppnistímabil. Þar áður lék Pablo með Fylki árið 2013 og Fjölni árið 2012. Hann á að baki 50 leiki í Pepsí-deild karla og 22 leiki í 1.deild karla með Fjölni. Hann hefur skorað 5 mörk í Pepsí-deild karla og 4 mörk í 1.deild karla.
Pablo er landsliðsmaður El Salvador og vann sér þar sæti eftir mjög góða frammistöðu með liði Stjörnunnar. Hjá Stjörnunni var hann lykilmaður í því liði sem hampaði fyrsta meistaratitli félagsins
Pablo er mjög hæfileikaríkur leikmaður og hefur sýnt það með frammistöðu sinni á vellinum. Hann verður Eyjaliðinu mikill liðsstyrkur og einn af lykilmönnum liðsins. ÍBV sér hann líka fyrir sér í þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á næstu árin, og í því verkefni að koma ÍBV í fremstu röð. Nú mun Pablo verða hluti af þeim hópi leikmanna, þjálfara og knattspyrnuráðsmanna sem munu sameiginlega í góðu samstarfi efla ÍBV og búa til öflugt lið.
Knattspyrnuráð ÍBV býður Pablo velkominn til liðs við ÍBV og væntir mikils af honum í framtíðinni.
Athugasemdir