Alex Freyr Hilmarsson er genginn til liðs við Pepsi deildarlið Víkings R. Alex Freyr kemur til Víkings frá Grindavík.
Víkingur R. sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu nú rétt í þessu.
Knattspyrnudeild Víkings lýsir yfir ánægju með að hafa samið við miðjumanninn Alex Frey Hilmarsson fyrrum leikmann Grindavíkur um að leika með Víkingi næstu þrjú árin.
Alex Freyr sem fæddur er árið 1993 hefur leikið með Grindavík frá árinu 2012 og skoraði hann 7 mörk í 20 leikjum síðastliðið sumar en samtals hefur hann leikið 122 leiki og skorað 31 mark í meistaraflokki. Alex Freyr lék með uppeldisfélagi sínu Sindra frá Höfn í Hornafirði áður en hann gekk til liðs við Grindavík.
Alex Freyr hefur verið undir smásjá erlendra liða en hann var meðal annars á reynslu hjá Malmö í Svíþjóð nú í haust.
Alex Freyr er þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við Víking R. í vetur en áður hafði Róbert Örn Óskarsson komið til liðsins frá Íslandsmeisturum FH og Iain Williamson frá Val.
Athugasemdir