Sven-Göran Eriksson, landsliðþjálfari Englendinga, ætlar að skreppa í heimsókn suður til Madrídar og spjalla við David Beckham fyrirliða sinn. Þrátt fyrir að gengi Real Madrid, og þá líka Beckham, hafi ekki staðið undir væntingum undanfarið hefur hann trú á sínum manni og stendur með honum.
Hann neitar að Beckham sé “búinn” sem leikmaður landsliðsins, þrátt fyrir hann sé ekki í nægilega góðri æfingu um þessar mundir. Eriksson gerir þar að auki athugasemdir við hvar Becks er látinn leika hjá Real Madrid.
Erikson hefur stöðugt staðið við bakið á Beckham, jafnvel þótt þessi snjalli miðvallarleikmaður Real Madrid hafi átt í erfiðleikum síðasta árið. Einnig finnst honum að Beckham ætti að spila á hægri kantinum hjá Real í stað þess að leika á miðjunni eins og hann hefur gert undanfarið. Í ljósi þess að Real hefur ekki náð viðunandi úrslitum undanfarið finnst Eriksson að pressan á leikmennina sé að sliga þá, og ekki síst Beckham.
Einhvern tímann á næstu þremur mánuðum mun landsliðsþjálfarinn fljúga til Madríd til að spjalla við hann til að peppa hann upp fyrir vináttuleik Englands og Hollands.
”Það verður að taka með í reikninginn að væntingarnar til Real Madrid eru þær að vinna hvern einasta leik 5-0. Það eru þeir ekki að gera og því eiga leikmennirnir erfitt um þessar mundir. Í leiknum á móti Barcelona spilaði allt liðið illa. Í síðasta leiknum núna á móti Bayer Leverkusen spilaði David vel í fyrri hálfleik samkvæmt mínum manni sem fylgdist með framgangi hans, en var tekinn útaf þegar hann rotaðist. Hann mundi ekkert eftir því hvað gerðist.
“Ég vil ekki blanda mér í hvernig málum Real Madrid er hagað, en mér finnst Beckham spila betur hægra megin á þriggja eða fjögra manna miðju,” bætti Eriksson við.
Aftur á móti er ekki beint eins og Beckham sé að blanda sér í slaginn um besta leikmann ársins í Evrópu. Eriksson, sem getur ekki kosið neina enska leikmenn hvort sem er, trúir að verðlaunin verði kapphlaup milli Ronaldinho og Thierry Henry, auk þess sem Deco gæti blandað sér í slaginn.
Athugasemdir