Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   sun 05. desember 2004 09:00
John Terry - Chelsea (20)
Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði. Við ætlum að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði og á aðfangadag jóla verður besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi verður einn leikmaður kynntur með pistli og í dag er það sá sem varð númer 20 í valinu:


20. John Terry

Englendingurinn John Terry fæddist í Barking í austur-London þann 7. desember 1980. Hann verður 24 ára gamall á þriðjudaginn og er því á besta aldri.

Terry kom til Chelsea ungur að aldri og byrjaði að spila sem miðjumaður. En einn daginn á æfingu vantaði miðvörð og var Terry beðinn um að fylla í skarðið.
Þessi dagur varð til þess að hann vék ekki úr miðvarðartsöðunni í nokkur ár. Hann þroskaðist mjög fljótt, bæði and- og líkamlega sem hjálpaði honum mikið.

Á tímabilinu 1998/1999 var Terry valinn besti ungi leikmaður Chelsea fyrir tímabilið. Það var á fyrsta ári sínu hjá unglingaliði Chelsea en hann sló þar eldri leikmönnum en honum sem áttu einnig möguleika á verðlaununum ref fyrir rass.

Hann spilaði sinn fyrsta leik gegn Aston Villa í Worthington bikarkepninni (sem í dag heitir Carling bikarkeppnin) á tímabilinu 1999/2000.
Terry var lánaður til Nottingham Forest til þess að öðlast leikreynslu og það gerði honum einkar gott. Hann stóð sig vel þar og kom svo aftur í skólann til Chelsea að læra af reynsluboltum á borð við Marcel Desailly og Frank Leboeuf sem hefur eflaust verið góður skóli.

Á tímabilinu 2000/2001 blómstraði Terry svo og var aftur kjörinn Besti ungi leikmaðurinn, en nú í aðalliðinu.

Á næsta tímabili, 2001/2002 byrjaði Terry svo að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu. Hann lék 49 leiki og skoraði sigurmörkin í átta liða- og undanúrslitum FA bikarsins. En hann varð fyrir áfalli þegar hann veiktist þegar kom að úrslitaleiknum og því gat hann ekki byrjað en Chelsea tapaði honum fyrir Arsenal.

Hann lék einnig fjölmarga U-21 árs landsleiki fyrir Englands hönd og var reyndar fyrirliði í nokkrum þeirra.

Terry á heima í hópi furðulegustu meiðsla allra tíma. Hann varð að fara í minniháttar uppskurð í júlí árið 2002 eftir að hann meiddist. Hann var að horfa á Wimbledon mótið í tennis þegar hann sneri sig á hnénu og var frá keppni í tvær vikur!

Það setur leiðinlegan svip á annars glæsilegan feril Terry, atburðirnir í ágúst árið 2002. Þá var hann á næturklúbbnum "The Wellington" í London ásamt Jody Morris, þáverandi liðsfélaga sínum og Des Byrne leikmanni Wimbledon.

Þeir sátu að drykkju þegar þeim var vísað út af staðnum og réðust þá á dyravörð. Terry og Morris voru hreinsaðir allra saka en Byrne var dæmdur fyrir að lemja dyravörð í höfuðið með glerflösku. Byrne sat í fangelsi í 45 daga fyrir þetta sem vakti mikla athygli.

Hann var svo lykilmaður í Chelsea liðinu á tímabilinu 2002/2003 þegar liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar og komst beint inn í Meistaradeildina.
Á síðasta tímabili var hann gerður að fyrirliða Chelsea og var það stoltasta stundin á hans ferli. Hann varð stöðugari leikmaður og skoraði þrjú mörk í 33 úrvalsdeildarleikjum. Chelsea enduðu í öðru sæti á eftir hinum ósigruðu Arsenal.

Terry var einnig framúrskarandi í Meistaradeildinni en Chelsea datt út í undanúrslitum fyrir Monaco. Jose Mourinho núverandi stjóri Chelsea stýrði Porto til sigurs í keppninni eins og flestir væntanlega vita.

Terry var fyrst kallaður í enska landsliðshópinn þegar England mætti Liechtenstein og Tyrklandi í undankeppni EM í marsmánuði árið 2003. Hann spilaði þó sinn fyrsta leik ekki fyrr en gegn Serbíu og Svartfjallalandi þann 3. júní í vináttulandsleik.
Hann spilaði mjög vel í sínum fyrsta keppnisleik, gegn Makedóníu í undankeppninni í fjarveru Rio Ferdinand. Hann var maður leiksins í gríðarlega mikilvægum leik gegn Tyrkjum sem tryggði England inn á EM.

Þar missti hann af fyrsta leiknum gegn Frökkum vegna meiðsla en sá leikur tapaðist. Hann var svo í liðinu sem vann Sviss og Króatíu sem og í 8-liða úrslitunum gegn Portúgal þar sem England tapaði í vítaspyrnukeppni.

Terry er Chelsea út í gegn og er hetja í augum stuðningsmannanna sem líta upp til fyrirliða síns. Hann er ekki lengur einn af efnilegustu varnarmönnum í heimi, hann er einn besti varnarmaður í heimi.

Hann hefur mikla leiðtogahæfileika, er einstaklega hraður og útsjónarsamur. Þá hefur hann einnig frábæra tækni sem og feikilega gott enni en hann hefur skorað mörg mörk fyrir Chelsea í gegnum tíðina.
Terry skrifaðu fyrir stuttu undir framlengingu á samningi sínum sem rennur nú út árið 2009. Hann er orðinn einn af hæstlaunuðustu leikmönnum Chelsea og hefur fengið mikið hrós frá stjóra sínum Jose Mourinho fyrir frábært tímabil sem hann hefur átt til þessa.

John Terry er lykilmaður í liði Chelsea sem stefnir ótrauðum á enska úrvalsdeildartitilinn í maí árið 2005.

Sjá einnig:
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)
Athugasemdir
banner
banner