
Markadrottningin, Margrét Lára Viðarsdóttir er komin heim úr atvinnumennsku og leikur sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi síðan 2008, á morgun.
Í vetur gekk hún í raðir Vals en þær mæta Fylki í 1. umferð Pepsi-deildar kvenna annað kvöld. Hún segist vera spennt fyrir því að byrja mótið og segir liðið koma vel undan vetri.
Í vetur gekk hún í raðir Vals en þær mæta Fylki í 1. umferð Pepsi-deildar kvenna annað kvöld. Hún segist vera spennt fyrir því að byrja mótið og segir liðið koma vel undan vetri.
„Það byrja allir með núll stig og það eiga allir möguleika í byrjun. Ég reikna með því að þetta verður mjög hörð barátta," sagði Margrét Lára en Valsliðinu er spáð 2. sæti í spá sérfræðinga Fótbolta.net.
„Spá er bara spá. Við erum með háleit markmið og ætlum okkur að vera berjast í toppbaráttunni. Við verðum síðan bara að sjá til hvernig þetta endar allt saman í haust," sagði Margrét Lára sem segir það enga spurningu vera um að Valsliðið sé með lið til að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
„Það eru miklar breytingar og við höfum fengið mjög sterka leikmenn. Við erum ennþá með mjög mikilvæga leikmenn í meiðslum sem við bíðum eftir að geti komið og verið með okkur. Við erum með breidd til staðar og það stíga aðrar upp á meðan. Það eykur breiddina hjá okkur. Við erum mjög jákvæðar fyrir þessu öllu saman."
Síðast þegar Margrét Lára lék á Íslandi skoraði hún hvorki fleiri né færri en 32 mörk í 18 leikjum með Val. Hún segist ekki reikna með því að endurtaka það.
„Ég tek bara eitt í einu. Það sem skiptir mestu máli er að liðið nái árangri. Ég er líka að eldast og það er að hægja á mér. Það er ekkert gefið í þessu og maður verður að spila fyrir liðið. Það er það sem skiptir mestu máli fyrir mig," sagði Margrét Lára.
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir