Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði. Við ætlum að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði og á aðfangadag jóla verður besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi verður einn leikmaður kynntur með pistli og í dag er það sá sem varð númer 20 í valinu:
19. David Beckham
Frægasti, ríkasti og vinsælasti knattspyrnumaður heims, David Beckham er í 19. sæti. Mörgum kann að undra að svo vinsæll knattspyrnumaður eins og hann er skuli ekki teljast betri en þetta en skýringarnar má líklega sjá á því að vinsældirnar hafa ekki farið of vel með hann auk þess sem vinsældirnar eru að miklu leyti til skapaðar með frábærri markaðsherferð Beckham og aðstoðarmanna hans.2. maí árið 1975 fæddist hjónunum David Edward Beckham (þekktur undir nafninu Ted) og Sandra West sveinbarn í Leytonstone í Lundúnum. Ted var gaslagningarmaður en Sandra hárgreiðslukona en þau höfðu gifst árið 1969 í Hoxton sem er í austur London en bjuggu í Leytonstone. Fyrir áttu þau stúlku, Lynne sem var fædd 1972 og síðar áttu þau Joanne sem fæddist 1982.
Ted hafði alltaf dreymt um að verða knattspyrnumaður en nú skyldi draumurinn lenda hjá syninum sem var skírður David Robert Joseph Beckham.
David Beckham byrjaði snemma að æfa sig með fótbolta og er hann var aðeins átta ára gamall var hann strax farinn að skora á fullu fyrir lið sitt, Ridgeway Rovers og á þremur leiktíðum skoraði hann yfir hundrað mörk. Er hann var 11 ára gamall sá hann sjónvarpsþátt um knattspyrnuskóla Bobby Charlton. Hann ákvað strax að taka þátt og í hæfileikaprófum varð hann efstur og fékk að fara í landskeppnina sem fór fram á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Sem dæmi um hæfileika hans þar þá var hann fluttur uppúr 13 ára hópnum og látinn æfa með sér eldri drengjun en var þrátt fyrir það stigahæstur.
Þar keppti hann gegn 100 öðrum sem höfðu komist áfram úr Bretlandi og Írlandi. Hann vann keppnina með 1100 stig en sá sem kom næstur honum var með 950 stig.Verðlaunin fyrir að klára skólann voru vikuheimsókn til Barcelona þar sem hann hitti fyrir Terry Venables og Mark Hughes auk leikmanna Börsunga.
Malcolm Fidgeon njósnari Man Utd sá hann spila með Ridgeway og ákvað að ræða við foreldra hans um að fá drenginn til United. En foreldrar hans ákváðu að sonurinn yrði að klára Chingford skólann áður en af því yrði.
Í kjölfarið fór hann að sækja leiki Manchester United og fór á alla leiki liðsins sem fóru fram í London. Fyrir leik gegn West Ham árið eftir var hann gerður að lukkudýri liðsins.
Eftir að hafa farið á reynslu hjá Leyton Orient og yfirburðaskóla Tottenham Hotspurs hóf hann að æfa með unglinga liði West Ham en þá hafði hann lokið skólanum og United fengu hann til liðs við sig og aðeins 14 ára gamall gerði hann unglingasamning við félagið árið 1989.
Í maí árið 1992 vann hann unglingabikar enska knattspyrnusambandsins en meðal leikmanna í liðinu með honum voru Ryan Giggs, Gary Neville, Nicky Butt og Paul Scholes. 23. september sama ár spilaði hann fyrsta leik sinn með aðalliðinu gegn Brighton í Coca Cola Cup. Fjórum mánuðum eftir það varð hann atvinnumaður hjá félaginu.
En líkamsstyrkurinn var ekki mikill og því spilaði hann ekkert næstu tvö árin eða þar 21. september 1994 er hann splaði gegn Port Vale í deildabikarnum. Tveimur mánuðum síðar voru mikil meiðsli hjá félaginu sem urðu til þess að Alex Ferguson varð að leita til ungu strákana í leik gegn Galataaray í Meistaradeildinni. Beckham þakkaði traustið og skoraði eitt mark í 4-0 sigri.
Í febrúar næsta ár gekk hann í raðir Preston í þriðju deildinni þar sem hann var í láni frá Man Utd. Í þeim fimm leikjum sem hann lék með félaginu skoraði hann tvö mörk. Hann var hinsvegar kallaður til baka í apríl þar sem hann lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni gegn Leeds Untied 2. apríl 1995.
Fyrsta markið í úrvalsdeildinni kom svo næstu leiktíð á eftir í leik gegn Aston Villa sem var opnunarleikur tímabilsins. Það var einmitt eftir þennan leik sem Alan Hansen lét frá sér þau fleygu orð: ,,Þú vinnur ekkert með krökkum." þar sem United liðið var mjög ungt. Beckham og félagar sýndu fram á annað og unnu deildina, og svo enska bikarinn. Beckham skoraði átta mörk á leiktíðinni og vann sér fast sæti í byrjunarliðinu og tók þar stöðu Andrei Kanchelskis sem var farinn.
Tímabilið 1996/1997 var tímabilið sem hann varð að stjörnu. Hann skoraði í leiknum um góðgerðarskjölinn og í fyrsta leik deildarinnar gegn Wimbledon skoraði hann mark tímabilsins er hann þrumaði á markið frá miðlínu. Eftir frammistöðuna á tímabilinu var hann svo kallaður í landsliðið. Hann hafði áður leikið með U-21 árs landsliðnu í tvö ár en lék sinn fyrsta landsleik fyrir A-liðið gegn Moldavíu í undankeppni HM 1998. Hann varð eini leimaðurinn sem lék alla leikina í undankeppninni fyrir HM 1998 í Frakklandi og endaði leiktíðina á að vinna ensku úrvalsdeildina með United og var kjörinn besti ungi leikmaðurinn af leikmönnumm deidlarinnar og var annar í kjörinu á leikmanni ársins.
Það var einmitt á þessu tímabili, í kringum áramót sem hann kynntist tilvonandi eiginkonu sinni, sem þá hét Victoria Adams sem hafði komið með vinkonu sinni á leik á Old Trafford en báðar voru þær söngkonur í kvennabandinu Spice Girls.
Tímabilið á eftir varð umdeild og líklega það tímabil sem Beckham vill helst gleyma. Ekki gekk sem skyldi hjá Manchester United sem féllu úr Meistaradeildinni eftir tap gegn Monaco og töpuðu deildinni til Arsenal sem hafði eins stigs forskot.
Hann fór á HM 1998 með enska landsliðinu og var ekki í byrjunarliðinu í fyrstu tveimur leikjunum en skoraði þar sitt fyrsta mark fyrir landsliðið í þriðja leiknum sem var gegn gegn Kólumbíu í Lens 26. júní. Í annarri umferð keppninnar fékk hann að líta rauða spjaldið í leik gegn Argentínu sem tapaðist í vítaspyrnukeppni. Spjaldið fékk hann fyrir að þykjast sparka í Diego Simone en þetta var fyrsta brottvísun hans á ferlinum. Heimkoman var hrikaleg og Beckham var óvinsæll í heimalandinu þar sem hann var sakaður um að liðið féll úr keppni. Hann þurfti því að flytja í nokkrar vikur erlendis á meðan ástandið heimafyrir róaðist.
En hann snéri vörn í sókn og svaraði fyrir sig á vellinum. Í fyrsta leiknum á 1998/1999 leiktíðinni skoraði hann frábært aukaspyrnumark gegn Leicester og þetta varð byrjunin á bestu leiktíð hans. United vann deildina og enska bikarinn en fjörið var ekki búið því þeir komust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem er einn sá dramatískasti sem menn muna eftir. United var 1-0 undir þar til á lokamínútu leiksins er þeir skoruðu tvö mörk og unnu Meistaradeildinna, allir 3 stóru titlarnir komnir í hús á leiktíðinni. Í mars sama ár fæddist honum og Victoria Adams söngkonu úr Spice Girls sonur og í júlí sama ár giftust þau.
Tímabilið 1999/2000 vann United ensku úrvalsdeildina en tapaði fyrir Real Madrid í Meistaradeildinni. England olli vonbrigðum á EM 2000 en Beckham gekk vel sjálfum. Hann var að verða vinsælasti maður landsins og varð annar í kjörinu sem knattspyrnumaður Evrópu og einnig í kjörinu á knattspyrnumanni ársins hjá FIFA, á eftir Rivaldo í bæði skiptin. Þá var hann einnig annar í vali BBC á íþróttamanni ársins.
Hann var enn á uppleið tímabilið 2001/2002 en á því tímabili fór hann í nýjar hæðir. Hann var útnefndur fyrirliði enska landsliðsins af nýja þjálfaranum, Sven Göran Eriksson og skoraði síðar mikilvægt mark gegn Grikkjum í undankeppni HM 2002 en markið varð til þess að England náði í lokakeppnina. United vann deildina með fádæma yfirburðum, 18 stiga forskoti. Í Meistaradeildarleik nokkrum vikum braut Beckham bein í fæti sínum skömmu fyrir HM eftri að hafa lenti í slæmri tæklingu frá Aldo Dusher leikmanni Deportivo. Óttast var að hann myndi missa af keppninni. Svo fór hinsvegar ekki og Beckham leiddi lið sinn í fjórðungsúrslit HM þar sem liðið tapaði fyrir heimsmeisturunum verðandi, Brasilíu. Á leið sinni þangað vann England lið Argentínu 1-0 með sigurmarki Beckham úr vítaspyrnu og þar með bætti hann upp fyrir rauða spjaldið gegn sama liði fjórum árum áður.
Beckham var orðinn goðsögn um allan heim og eyddi miklum tíma í að markaðssetja sjálfan sig. Í febrúar 2003 lenti hann í frægu atviki í búningklefanum eftir tapleik geggn Arsenal í enska bikarnum. Alex Ferguson stjóri Man Utd liðsins hafði reiðst svo yfir frammistöðu liðsins að hann sparkaði í takkaskó sem lá á gólfinu og lenti í andlitinu á Beckham og varð til þess að sár myndaðist sem þurfti að sauma aftur.
Mikill orðrómur var farinn að berast um að stórlið Real Madrid og Barcelona vildu kaupa hann frá Man Utd og Alex Ferguson vildi ekki hafa hann lengur vegna vandamálanna sem fylgdu markaðssetningu hans. Beckham var látinn sitja á bekknum í Meistaradeildarleik gegn Real Madrid og fréttir af miklu ósætti milli hans og Ferguson voru tíðar í blöðunum.
United vann ensku úrvalsdeildina þetta ár en fréttir af hugsanlegum félagaskiptum Beckham uxu. Beckham fór í júnímánuði í auglýsingaferð til Bandaríkjanna og 7. júní staðfestir United áhuga spænsku stórliðanna á honum og 10. júní samþykkir félagið kauptilboð Joan Laporta forsetaframbjóðanda hjá Barcelona. Laporta hafði sett kaup á Beckham sem forgangsatriði í kosningabaráttunni en skyndilega varð ekkert af kaupunum. 17. júní samþykkti Man Utd svo 25 milljón punda tilboð Real Madrid en þremur dögum áður hafði Beckham verið sæmdur OBE orðunni ef bresku drottningunni.
14 ára ferli Beckham hjá United var á enda og við tók framandi staður og miklar breytingar. Fyrsta stóra breytingin í huga margra var hvaða treyjunúmer hann myndi velja sér. Eftir að hafa spilað í treyju númer 7 í öll þessi ár og markaðssett vörur með nafni sínu og 7 var ljóst að hann varð að segja skilið við það númer því hjá Real var goðsögnin Raul með númerið. Eftir mikla umhugsun ákvað hann 2. júlí að spila í treyju númer 23. Ýmsar sögur fór af stað hvers vegna hann valdi númerið en opinbera skýringin er sú að gamalt átrúnaðargoð hans, Michael Jorden lék í treyju með sama númeri í NBA körfuboltanum.
Markaðssetning Beckham jókst mjög mikið og treyjusala fyrstu dagana eftir kaup Real Madrid á honum var fljót að skila vel upp í kaupverðið. Hann var byrjaður að vinna í ævisögu sinni sem kom svo út um jólin 2003.
Mikið af sögusögnum fór að birtast um einkalíf Beckham í blöðunum og tvær konur sögðust hafa átt í ástarsambandi við hann á Spáni á meðan victoria var á Englandi. Samband þeirra hjóna hélt þrátt fyrir allt en Beckham eyddi miklum tíma í að bjarga sambandinu og sinnti því æfingum og leikjum Real Madrid ekki sem skyldi.
Í byrjun júní 2004 mættu Englendingar svo Íslendingum í lokaæfingaleik sínum fyrir EM 2004 í leik sem endaði ekki vel fyrir íslenska liðið. En í kjölfarið fór enska liðið til Portúgals á Evrópumótið. Ekki byrjaði vel þar fyrir Beckham sem misnotaði vítaspyrnu í fyrsta leik Englendinga gegn Frökkum í leik þar sem Frakkar fóru með sigur af hendi. Englendingar féllu út í fjórðungsúrslitum fyrir heimamönnum en leikurinn fór í vítaspyrnukeppni þar sem Beckham misnotaði sína spyrnu illilega en boltinn fór mjög langt framhjá markinu.
Í undankeppni HM 2006 í október mánuði þetta ár brákaði Beckham rifbein í leik gegn Wales og skömmu síðar í leiknum fór hann í varasama tæklingu og braut viljandi á Ben Tatcher til að sækja sér gult spjald og þar með yrði hann í banni í næsta leik sem hann hvort eð er myndi missa af vegna meiðslanna. Hann var mikið gagnrýndur fyrir þetta og reitti marga til reiði, þar á meðal Sepp Blatter forseta FIFA sem ritaði honum bréf vegna málsins . Þrátt fyrir það slapp hann við refsingu vegna þessa.
David Beckham er í dag ríkasti knattspyrnumaður heims en eignir hans eru metnar á 65 milljónir punda. Í íslenskum nýaurum eru það rétt tæpir 8 milljarðar króna en bankabókin gerir ekkert annað en að fitna. Auk launa hans hjá Real Madrid fær hann hluta af söluvirði allra David Beckham vara, gefur út sína eigin tískulínu, DVD diska, bækur og hefur skrifað undir samninga um að leika í bíómyndum. Að auki hefur hann gert mjög verðmæta auglýsingasamninga sem skila miklum peningum og það nýjasta er að hann íhugar nú að gera raunveruleikaþátt fyrir sjónvarp, svipaðan þátt Ozzy Osbourne fjölskyldunnar.
Það þarf ekki að deila um að Beckham er mjög fær knattspyrnumaður og færni hann í að skora úr aukaspyrnum er eitthvað sem enginn leikur eftir. Hann hefur alltaf lagt mikið á sig í leikjum en á það þó til að veigra sér við að fara í tæklingar af ótta við meiðsli. En ævintýri hans utan vallar taka sífellt meira af tíma hans en það var einmitt ein ástæða þess að ferli hans hjá Manchester United lauk.
Sjá einnig:
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)
Athugasemdir