Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði og höldum nú áfram að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði. Á aðfangadag jóla verður síðan besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi kynnum við einn leikmann með pistli og í dag er það sá sem varð númer 14 í valinu:
14. Sol Campbell
Sol Campbell kom fótboltaheiminum í opna skjöldu þegar hann gekk til liðs við Arsenal sumarið 2001. Blaðamenn sem safnast höfðu saman á æfingasvæði Arsenal bjuggust við að félagið myndi kynna Richard Wright en það sem þeir sáu var einn eftirsóttasti varnarmaðurinn í bransanum. Campbell var án samnings og þurfti Arsenal því ekkert að borga fyrir hann, en hann neitaði tilboðum frá Barcelona, Inter, Bayern Munchen og fleiri liðum.Reiðin meðal stuðningsmanna Tottenham var gríðarleg enda hafði hann yfirgefið þá á frjálsri sölu fyrir erkióvinina og nágrannana í Arsenal. Frá upphafi var ljóst að þetta var mjög mikill fengur fyrir Arsene Wenger stjóra Arsenal sem hafði lofað því að fá stór nöfn til liðsins árið 2001. Campbell sagði að ákvörðunin um að yfirgefa Tottenham hafi verið sú erfiðasta á ævi hans en hann var dýrkaður og dáður á White Hart Lane. Þrátt fyrir að Arsenal hafi verið með í kapphlaupinu um hann bjuggust fáir við því að þeir yrðu fyrir valinu.
Campbell fæddist 18.september árið 1974 í Newham og vakti fyrst athygli fyrir fótboltahæfileika sína þegar hann lék með skólaliði sínu. Fyrir tímabilið 1992-93 fékk hann samning hjá Tottenham og spilaði sinn fyrsta leik gegn Chelsea í desember 1992 þegar hann kom inn sem varamaður fyrir Nicky Barmby. Campbell skoraði eina mark Tottenham í leiknum en liðið tapaði 2-1, hann lék þó ekki meira með liðinu þetta tímabilið.
Tækifærin urðu fleiri sem Campbell fékk og í samræmi við það varð sjálfstraust hans enn meira. Hann var farinn að vekja mikla athygli og talinn framtíðarmaður í vörn enska landsliðsins. Árið 1995 lék hann sinn fyrsta landsleik en það var vináttulandsleikur gegn Írlandi í febrúar það ár. Síðan hefur Campbell orðið fastamaður í vörn enska landsliðsins og margir vildu sjá hann sem fyrirliða þegar Tony Adams lagði landsliðsskóna á hilluna.
Á Heimsmeistaramótinu 1998 spilaði Campbell frábærlega og eftir það mót vissi hann að framtíð hans væri ekki á White Hart Lane, hann yrði að fara í stærra félag til að taka næsta skref á ferli sínum og eiga möguleika á að vinna titla. Flestir bjuggust við að hann færi til Spánar eða Ítalíu en hann ákvað að færa sig bara aðeins til í London, hann fær kannski ekki jafn há laun þar og hann hefði fengið hjá Barcelona eða Inter en á samt mikla möguleika á að vinna titla og það er það sem hann vill.
Eftir fyrsta tímabil sitt hjá Arsenal sá Campbell að hann hafði tekið rétta ákvörðun, liðið vann tvöfalt í Englandi og sumarið eftir spilaði Campbell í hjarta varnar enska landsliðsins á HM og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á mótinu, það var á móti Svíþjóð. Arsenal tapaði enska meistaratitlinum tímabilið 2002/03 og telja margir að aðalástæða þess sé sú að Campbell var í leikbanni í lokaleikjunum vegna olnbogaskots og því stórt skarð í vörn Arsenal,
Ferill Campbell hefur ekki verið eintómur dans á rósum, faðir hans dó og tók það mikið á hans sálarlíf. Agavandamál hafa líka sett nokkuð ljótan blett á feril hans, sérstaklega í upphafi tímabilsins 2003/04 þegar hann sparkaði í Eric Djemba-Djemba leikmann Manchester United í leiknum um Samfélagsskjöldinn og var svo rekinn af velli í fyrsta deildarleiknum það tímabilið. Þessu tímabili lauk þó vel því liðið hampaði meistaratitlinum í lokin.
Þessi fyrrum fyrirliði Tottenham er samt sem áður einn allra besti varnarmaður heims í dag, því geta fáir mótmælt.
Sjá einnig:
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)
Athugasemdir