Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 13. desember 2004 01:31
Ingólfur Pétursson
Ronaldo - Real Madrid (12)
Mynd: Ingólfur Pétursson
Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði og höldum nú áfram að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði. Á aðfangadag jóla verður síðan besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi kynnum við einn leikmann með pistli og í dag er það sá sem varð númer 12 í valinu:



Luiz Nazario de Lima, betur þekktur sem Ronaldo eða Ronaldinho, fæddist 22. september 1976. Æskuár hans eru ekki mjög frábrugðin æskuárum annarra frægra knattspyrnumanna sem Brasilía hefur alið af sér. Hann ólst upp við fábrotnar aðstæður í Bento Ribeiro hverfinu, en það mun vera eitt af fátækustu hverfunum í Río de Janeiro.

Og Ronaldo fékk að finna að finna fyrir því, hann lifði ásamt fjölskyldu sinni í fábrotnu húsi, foreldrar hans skildu þegar hann var ellefu ára gamall og eftir það sá móðir hans um að reka heimilið og borga menntun barna sinna.

Tólf ára gamall hætti Ronaldo í skóla og fór þá að æfa fótbolta af fullum krafti á litlum völlum og hét fyrsta liðið sem hann spilaði fyrir Valqueire Tenis Clube. Fljótlega fór hann þó að æfa á stórum völlum og skipti hann þá yfir í vinsælasta hverfislið Bento Ribeiro, það hét Social Ramos Club og skoraði hann átta mörk fyrir þá. Eftir það lá leiðin til annars smáliðs sem hét São Cristovao þar sem gerði heil 36 mörk.

Það var ekki fyrir Ronaldo að staldra lengi við hjá São Cristovao , draumar hans náðu lengra. Og stóra stundin var ekki langt undan. Tveir kaupsýslumenn ákváðu að kaupa hann með því hugarfari að selja hann síðar til stærra liðs. Ronaldo sem var áhangandi Flamengo hefði gert hvað sem var til að ganga til liðs við þá, eitt vinsælasta knattspyrnulið Brasilíu. Sögur herma að hann hafi ekki gengið til liðs við þá vegna þess að forráðamenn Flamenco tímdu ekki að kaupa handa honum knattspyrnuskó og enn aðrir segja að Flamenco hafi ekki tímt að kaupa handa honum strætókort svo hann kæmist á æfingar.

Að lokum var aðeins einn klúbbur sem sýndi honum áhuga, það var Cruzeiro de Belo Horizonte sem bauð honum samning. Og þar hófst glæstur ferill Ronaldos, þrátt fyrir öll vandamálin. Eftir 58 mörk í 60 leikjum fékk hann tækifæri í unglingalandsliðinu og komst í Copa Libertadores (þ.e. Meistaradeild Suður-Ameríku). 17 ára gamall var hann búinn að vinna sér sæti í aðallandsliðshóp Brasilíu og fór með þeim á HM ´94 í Bandaríkjunum þar sem þeir urðu heimsmeistarar. En Ronaldo spilaði ekki eina sekúndu, sem honum fannst mjög sorglegt.

Þar sem ljóst var að frami hans gat ekki orðið meiri í heimalandinu, var það sjálfur Romario sem mælti með honum sem arftaka sínum hjá PSV Eindhoven. Ronaldo var orðinn frægur... hann skoraði 55 mörk í 56 leikjum. Nú voru toppklúbbarnir í Evrópu farnir að slást um hann, þeirra á meðal voru Barcelona og Inter Milan.

Það var Barcelona sem vann slaginn og Ronaldo fannst sem hann væri kominn til himnaríkis. Með liðinu frá Katalóníu náði hann hámarkinu á sínum stutta ferli, að vísu varð Barcelona ekki meistari það árið en Ronaldo skoraði 34 mörk og var sá markahæstur í spænsku deildinni. Á þessum tímapunkti var hann konungur fótboltans, frammistaðan með Barcelona varð til þess að hann var valinn besti knattspyrnumaður heims af knattspyrnusamtökum FIFA.

Ronaldo spilaði einungis eitt ár með Barcelona, eftir tímabilið var komið að Inter Milan og gekk hann til liðs við þá árið 1997. Frammistaðan fyrir framan markið lét ekki á sér standa, Ronaldo var eins og rándýr fyrir framan mark andstæðingana og fékk hann nafnbótina “besti knattspyrnumaður heims”, öðru sinni frá FIFA eftir tímabilið. Menn kepptust við að lofa knattspyrnuhæfileika Ronaldo fyrir úrslitaleik HM ´98 í Frakklandi og leikurinn gegn Frökkum átti að verða rúsínan í pylsuendanum á frábæru ári hjá Ronaldo.

En það sem gerðist er mönnum enn hulinn ráðgáta, í öllum leiknum virtist hann vera hálfdasaður og ringlaður og var aðeins skugginn af sjálfum sér.
Heimsmeistaratitillinn komst undan og erfitt var að henda reiður á svör Ronaldos um heilsuástand sitt er hann var spurður bæði fyrir og eftir leikinn. Eftir það fór að halla undan fæti.

Næstu ár er Ronaldo meira og minna frá vegna meiðsla, 1999 meiðist hann á hné sem taka sig síðan upp ári síðar. Hann spilaði síðan ekki leik tímabilið 2000/ 2001. En bati hans var hins vegar ótrúlegur og kom á góðum tíma. Hann var kominn á fullan kraft fyrir HM ´02 í Japan/Kóreu og þar könnuðust menn við hinn gamla Ronaldo. Í Japan og Kóreu skoraði hann átta mörk og gekk af velli með gullskóinn og heimsmeistaratitilinn sjálfan, eftir að hafa skorað bæði mörkin í 2-0 sigri á Þýskalandi.

Eins og sannri hetju sæmir lýsti hann því yfir að hann væri kominn með nóg af lífinu í Mílanóborg og sagðist ætla að ganga til liðs við þáverandi Evrópumeistara, Real Madrid, liðið sem hann spilar með í dag. Ronaldo segist aldrei geta þakkað hæfileikum sínum í fótbolta nægjanlega vel fyrir að koma sér burt úr gildru fátæktar, eða eins og hann sjálfur segir frá: “fótboltinn bjargaði mér frá því að lenda í eiturlyfjum og afbrotum”.

Eftir lestur þennan, og að lokum, er við hæfi að minnast þess sem sjálfur Maradona hafði að segja um Ronaldo í ævisögu sinni “Ég er hann Diego, en þar segir hann: “Strákurinn er stórleikmaður, en honum var kippt í burtu af frægðarlestinni og auglýsingasamningarnir komu því svo mikið inn í hausinn á honum að hann yrði að vera meistari, að fyrir úrslitaleikinn í Frakklandi ´98, fékk hann… asmakast. Ég gleypi ekki við því, það var ekki það sem henti strákinn, strákurinn var of ákafur í að þurfa spila vel og það er við hann að sakast, allir getum við átt slæma leiki. En þess var krafist af honum að hann skoraði mörk og sveiflaði Nike skónum eins og Patoruzito með steinaslönguna. Þeir tróðu svo miklu í hausinn á honum að þeir eyðilögðu hann. Ég held að hann nái sér upp úr þessu og vonandi kemst hann líka upp úr síðustu meiðslunum, þó að þessi síðustu virðast mjög erfið. En hann hefur hvorki náð að vera stærri en Romario, né heldur Rivaldo. Ég var fullur meðaumkunar þegar hann lenti í aftur í meiðslum, mér fannst hrikalegt að sjá hann grátandi á vellinum. Ég sendi honum símskeyti á sjúkrahúsið í Frakklandi, þar sem hann var skorinn upp, bara til þess að vera aðeins nærri.
Athugasemdir
banner
banner
banner