Áfram höldum við á Fótbolti.net að telja niður til jóla með því að kynna bestu knattspyrnumenn heims að mati lesenda okkar. Á aðfangadag verður besti leikmaður heims kynntur en nú er það leikmaðurinn sem varð í níunda sæti í kjörinu.
9. Ruud van Nistelrooy
Í suðurhluta Hollands er að finna bæ sem heitir Oss. Ruud van Nistelrooy fæddist í þessum bæ þann 1.júlí árið 1976 og sem skólastrákur fékk hann fljótt áhuga á íþróttum. Hann er mikill hæfileikamaður og var í fótbolta, tennis og fimleikum. Hann spilaði sem aftasti varnarmaður með bæjarliðinu en ferill hans tók stórt stökk 1993 þegar hann færði sig um set til FC Den Bosch sem þá var í 2.deildinni í Hollandi. Þetta var hans fyrsta atvinnumannalið og þar náði hann að sýna hvað hann kunni. Hann var látinn spila í sókninni, rétt fyrir aftan framherjana tvo.Fyrsta tímabilið hjá Den Bosch spilaði Ruud reyndar lítið sem ekkert en það var árið 1997 sem hann sprakk algjörlega út. Þá skoraði hann 12 mörk í 13 leikjum og 1.deildarliðið Heerenveen fékk hann til sín. Þar var hann látinn spila í fremstu víglínu og skoraði hann 13 mörk í 31 leik fyrsta tímabil. Þjálfari hans hjá Heerenveen skipaði honum eitt sinn að fara að fylgjast með Dennis Bergkamp og sagði honum að læra af honum. Ruud keyrði 200 kílómetra til að fara að fylgjast með Bergkamp og það hefur skilað sér.
Á sama degi og Ruud van Nistelrooy varð 22 ára árið 1998 þá var hann keyptur til PSV Eindhoven, kaupverðið var 4,2 milljónir punda sem var met milli tveggja hollenskra liða. Hann var þó fljótur að sýna að hann var peningana virði og skoraði sitt fyrsta mark fyrir PSV gegn sínum fyrrum samherjum í Heerenveen, í lok október kom síðan hans fyrsta þrenna fyrir PSV en hann skoraði hana gegn Sparta.
Mörg stórlið voru farin að sýna honum áhuga en Manchester United reyndi fyrst að kaupa hann í apríl 2000. Darren Ferguson, sonur Sir Alex Ferguson, bað föður sinn upphaflega um að fylgjast grannt með Ruud. Hann stóðst þó ekki læknisskoðun því fyrr í þessum mánuði hafði hann meiðst á hægra hné í æfingaleik gegn Silkeborg. United vildi að Ruud færi í uppskurð en hann neitaði því þar sem hann vissi að þá ætti hann ekki möguleika á að spila með hollenska landsliðinu á Evrópumótinu árið 2000 sem haldið var í Hollandi.
Margir sýndu Ruud stuðning í þessum erfiðu meiðslum og hughreystu hann, þar á meðal Ronaldo sem er fyrrum leikmaður PSV og Marc Overmars. Þá var Sir Alex Ferguson í stöðugu sambandi við hann og lét hann vita af því að Roy Keane og Lothar Matthaus hefðu lent í sömu meiðslum og náð sér að fullu. Með hjálp einkaþjálfara var Ruud kominn á hraðferð í átt að bata, hann eyddi klukkustundum í sundlauginni og á æfingasvæðinu, allt til að flýta fyrir bata.
Í mars árið 2001 fór Ruud að leika með PSV að nýju og hélt uppteknum hætti. Í sínum fyrsta leik eftir meiðslin skoraði hann tvö mörk og það var svo loks 23.apríl sem hann gekk til liðs við Manchester United. Hann neitaði tilboði frá Real Madrid og United fékk hann fyrir 19 milljónir punda sem var breskt met. Fyrsti leikur Ruud fyrir United var gegn Liverpool um Góðgerðarskjöldinn. Hann skoraði í leiknum en þó vann Liverpool.
Hann meiddist snemma tímabilið 2002/03 og margir töldu að þetta yrði ekki hans tímabil. Það reyndist þó rangt því hann skoraði 47 mörk fyrir félag og landslið á tímabilinu, hann skoraði þ.á.m. í tólf leikjum í röð (tveir landsleikir meðtaldir)! Manchester United varð enskur meistari og komst í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem hann var markahæstur. Eftirminnilegasta markið sem Ruud skoraði á tímabilinu var gegn Fulham þar sem hann fékk boltann á miðju vallarins, brunaði upp allan völlinn og kom honum í netið á endanum.
Nistelrooy átti ekki jafn gott tímabil 2003/04 en skoraði þó 37 mörk í öllum keppnum, þar á meðal sitt hundraðasta fyrir United. Hann var síðan ein af stjörnum Evrópukeppninnar 2004 þar sem hann var næst markahæstur ásamt Wayne Rooney. Á mótinu lýsti hann því yfir að draumur sinn væri að fá Rooney í United og eins og allir vita þá rættist sá draumur hans fyrir ekki alls löngu því Rooney var keyptur frá Everton.
Ruud van Nistelrooy er svo sannarlega markaskorari af guðs náð. Sir Alex Ferguson segir hann vera besta sóknarmann sem hann hafi haft í stjórnartíð sinni og skildi engan undra. Rutgerus, eins og móðir hans kallar hann, er frábær spyrnumaður, sterkur skallamaður, gefst aldrei upp og er umfram allt stórkostlegur sóknarmaður.
- Keyptur til Manchester United fyrir 19 milljónir punda í apríl 2001.
- Skoraði fyrstu þrennuna fyrir félagið gegn Southampton 22.desember 2001.
- Varð fyrsti leikmaður félagsins til að skora í sjö leikjum í röð.
- Varð fyrsti leikmaðurinn til að skora í átta leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni.
- Var besti erlendi leikmaðurinn í enska boltanum 2001/02.
- Leikmaður ársins hjá Manchester United sama tímabil.
- Markahæstur í ensku úrvalsdeildinni 2002/2003.
- Leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni 2002/03.
- Fyrsti leikmaður úrvalsdeildarinnar til að skora í tíu leikjum í röð.
- Valinn besti sóknarmaður Evrópu árið 2003.
- Bætti met Denis Law hjá United í markaskorun í Evrópukeppni.
- Valinn í lið ársins í Evrópu 2003.
- Lenti í 9.sæti í kjöri Fótbolta.net á besta leikmanni heims.
Sjá einnig:
Nr. 10: Gianluigi Buffon (Juventus)
Nr. 11: Eiður Smári Guðjohnsen (Chelsea)
Nr. 12: Ronaldo (Real Madrid)
Nr. 13: Arjen Robben (Chelsea)
Nr. 14: Sol Campbell (Arsenal)
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)
Athugasemdir