Það voru 99,8% sjónvarpsáhorfenda sem sáu Ísland tryggja sig áfram í 16-liða úrslitin á EM í gær. Liðið mætti Austurríki og bar sigur úr býtum 2-1 í afar spennandi leik.
Þetta bætti fyrra met sem sett var á leiknum gegn Ungverjum á laugardaginn, en 98,9% sjónvarpsáhorfenda sáu þann leik.
„99,8% sjónvarpsáhorfenda völdu að horfa á leikinn og má reikna með að þessi 0,2% hafi einfaldlega þurft að skipta á annað til að róa taugarnar,“ segir Kári Jónsson sérfræðingur Símans í fjölmiðlamælingum um fyrstu tölur frá Gallup.
99,8% sjónvarpsáhorfenda sem voru með kveikt á sjónvarpin voru með stillt á leikinn. 68,5 þjóðarinnar horfðu á eitthvað af leiknum og 54,6% horfðu á hann allan.
Í tilkynningu frá Símanum býst Kári við því að fleiri horfi á leikinn þegar Ísland mætir Englandi í 16-liða úrslitum.
„Það er stórkostlegt að 68,5% þjóðarinnar hafi horft á leikinn og væntum við þess að enn fleiri horfi þegar landsliðið mætir Englendingum á mánudag.“
Hápunktur leiksins var sigurmark Íslands undir lokin. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðlunar og markaða, var á leiknum í París í gær. „Mögnuð upplifun og með ólíkindum að standa þarna með þremur prósentum þjóðarinnar.“
„Mánudagsleikurinn verður ein stærsta sjónvarpsstundin í Sjónvarpi Símans, enda hefur England átt sinn sess í hjörtum okkar knattspyrnuáhugamanna um áratuga skeið. Við erum að keppa við uppeldisliðið. England er draumaandstæðingur.“
Landsmenn gátu valið að horfa á útsendingu Símans á RÚV, SíminnSport eða Sjónvarp Símans. Fjölmargir hafa einnig kosið að horfa á leikinn í gegnum appið að Sjónvarpi Símans. Áhorfið þar sló öll met og var ríflega þrefalt meira en vanalega.
Athugasemdir