mán 27. júní 2016 23:45
Jóhann Ingi Hafþórsson
Nice
Hannes: Allir á vellinum að upplifa stærsta kvöld lífsins
Icelandair
Hannes í leiknum í kvöld.
Hannes í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson spjallaði við fréttamenn eftir stórkostlega leikinn við Englendinga í kvöld. Ísland gerði sér lítið fyrir og vann England, 2-1 í kvöld.

Markmaðurinn var spurður hvernig honum leið eftir leik.

„Hvað getur maður sagt? Eru ekki allir búnir að segja það? Það eru engin orð, maður er að upplifa einhverjar nýjar tilfinningar og þetta er svo ótrúlega brjálað og maður er ennþá að átta sig á því að þetta er ekki draumur."

England komst yfir alveg í byrjun er Hannes braut á Raheem Sterling innan teigs og skoraði Wayne Rooney úr vítinu sem fylgdi.

„Þetta var martraðarbyrjun fyrir mig persónulega og fyrir liðið en sem betur fer er ég með frábærum liðsfélögum í liðið og þeir náðu að hreinsa upp eftir mig. Við jöfnuðum tveim mínútum seinna og þeir sögðu að þetta var það besta sem gat komið fyrir. Þetta kveikti á neystanum og það að jafna svona snemma gaf okkur meðbyr og kraft og eftir það vorum við með momentumið í leiknum og manni leið vel með þetta en það var hrikalega mikilvægt að koma svona snemma til baka. Það hefði verið helvíti þungt að hafa þá confident og síga lengur inn í leikinn með mark í plús. Þeir töluðu mikið um það að þeir þyrftu að skora snemma og þá myndu þeir klára okkur."

Hann var ánægður með betri frammistöðu en liðið hefur sýnt á áður á mótinu.

„Við náðum að sýna betri hliðar í dag og fengum opnustu færin í leiknum. Það er virkilega jákvætt, ég er búinn að segja það lengi að við eigum mikið inni og við þurftum svo sannarlega að eiga einn af okkar bestu leikjum til að vinna England. Við gerðum það og sýndum öllum í heiminum að við erum góðir í fótbolta."

Hannes fór í rétt horn í vítinu en skotið var í bláhornið og ansi fast.

„Ég kom ekki við hann. Þetta var þrusuflott víti hjá honum og ég var ekki það nálægt því að verja hann en ég fór í rétt horn eins og ég geri yfirleitt."

Frakkland á Stade de France bíður nú Íslendinga í 8-liða úrslitunum. Við spurðum Hannes hvernig tilfinningin væri að fara inn í þann leik.

„Það er enn einn stærsti leikurinn í íslenskri fótboltasögu. Ætli það sé ekki númer 15 síðustu fjögur ár. Við erum orðnir ansi sjóaðir að tækla þá pressu og það verður frábært kvöld eins og þetta kvöld var frábært. Ævintýrið heldur áfram og að sjálfsögðu förum við inn í þann leik með planið að vinna Frakkana. Það verður gríðarlega erfitt og ennþá erfiðara en í kvöld en það er engin ástæða til annars en að fara fullir sjálfstrausts í það og úrslitin í kvöld og síðustu fjögurra ára hafa sýnt að við getum náð úrslitum á móti hverjum sem er. "

Hannes var svo spurður hvernig þetta væri búið að vera á mótinu, hingað til.

„Þið getið rétt ýmindað ykkur hvað þetta er næs. Við erum á lokamóti, það eitt og sér hefði verið nógu gaman. Að ná þessum úrslitum leik eftir leik. Þetta var stórkostlegt kvöld á móti Austurríki og stórkostlegt kvöld núna, bæði við og áhorfendur sem eru að upplifa þetta eru að upplifa the time of their lives."

„Allir á vellinum voru að upplifa stærsta kvöld lífsins. Það sýnir sig, Íslendingar eru svo ógeðslega ánægðir og þeim finnst svo gaman hérna, nákvæmnlega eins gaman og okkur. Þeir eru allir að koma til að skemmta sér og eru trylltir af stuðningi og gleði. Að hafa þetta fólk hérna er gjörsamlega ómetanlegt. Þeir yfirgnæfðu 30.000 Englendinga eins og þeir yfirgnæfðu 50.000 Hollendinga," sagði Hannes, vissulega kátur.

Fótbolti.net er með öflugt teymi á Evrópumótinu og færir ykkur fjölmargar fréttir daglega. Einnig er fylgst grannt með gegnum helstu samskiptamiðla.
- Vertu með okkur á Twitter með því að nota kassamerkið #fotboltinet fyrir færslur um mótið.
- Fótbolti.net á Snapchat: Fotboltinet
- Fótbolti.net á Instagram: Smelltu hér til að sjá .Net á Instagram.
Fótbolti.net á Facebook: Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook.

FARÐU Á EM SÍÐU FÓTBOLTA.NET
Athugasemdir
banner
banner
banner