Gunnar Borgþórsson þjálfari Selfoss var vonsvikinn eftir naumt tap gegn Val í undanúrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Leiknum lauk með 1-2 sigri Vals en Selfyssingar fengu tækifæri til þess að jafna í lok leiksins.
Lestu um leikinn: Selfoss 1 - 2 Valur
Gunni hafði mikla trú á því að liðið gæti sett jöfnunarmark í lokin.
„Já, ég hafði það. Mér fannst ótrúlega mikið drive í okkur og okkur langaði þetta hrikalega mikið. Það sauð á öllum, menn voru ferskir og það var ekki að sjá á liðinu okkar að við værum búnir að spila 90 mínútur á móti úrvalsdeildarliði."
Gunnar segir að Selfyssingar hefðu ekki átt að fá meira út úr leiknum.
„Nei ég held ekki. Þetta var mjög jafn leikur. Ef eitthvað hefði fallið fyrir okkur þá hefðum við mögulega getað jafnað í lokin og eitthvað svona blabla. Þetta var jafn og skemmtilegur leikur, Valsarar taka þetta og reyna að verja þennan titil."
Selfyssingar geta nú sett fullan fókus á Inkasso-deildina.
„Jájá, við hefðum gert það allan tímann líka. Það er eitthvað sem félagið, strákarnir og við öll eigum að fókusa á, að geta einbeitt okkur að tveimur keppnum. Það er gaman að vera með í þessu og gaman að eiga möguleika á að keppa um eitthvað alvöru."
Selfyssingar urðu fyrir miklu áfalli þegar Stefán Ragnar meiddist nú á dögunum. Gunnar ætlar ekki að sækja styrkingu.
Athugasemdir