Um helgina verður leikið í ensku bikarkeppninni, FA Cup, og verður Sýn með fjóra leiki í beinni útsendingu um helgina. Þar á meðal er viðureign utandeildarliðsins Yeading gegn stórliði Newcastle sem fram fer á sunnudaginn. Með liði Yeading leikur Davis Haule en hann lék á sínum tíma hér á landi!
Víðir í Garði hafði Haule innanborðs í átta leikjum 3.deildinni (sem jafngildir 2.deildinni í dag) árið 1996, í þessum átta leikjum náði Haule að skora sex mörk, þar á meðal þrennu gegn Þrótti Neskaupstað í 4-1 sigri. Haule er 28 ára, fæddur í Tanzaníu en fluttist 4.ára til Englands með foreldrum sínum.
Haule getur leikið bæði á miðju og í sókn en hann hefur einnig leikið með Woking og í Nýja-Sjálandi með North Shore United. Hann verður hinsvegar í eldlínunni gegn Newcastle á sunnudaginn. Það var sannkallaður happadráttur þegar Yeading dróst gegn Newcastle en liðið reyndi að fá leikinn færðan á heimavöll Newcastle þar sem þeirra völlur er ekki ósvipaður og sá sem er í Garðinum!
Á endanum ákvað FA að leikurinn skyldi spilaður á Loftus Road heimavelli QPR. Enska bikarkeppnin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og oft uppfull af óvæntum úrslitum þar sem Davíð nær að stríða Golíat.
Athugasemdir