Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   þri 04. október 2016 19:22
Magnús Már Einarsson
Gary Martin ætlar að sækja um íslenskan ríkisborgararétt
Gary Martin skorar í leik með Víkingi í sumar.
Gary Martin skorar í leik með Víkingi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enski framherjinn Gary Martin hefur ákveðið að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Gary kom til ÍA árið 2010 og hefur síðan þá einnig leikið með KR og Víkingi Reykjavík. Gary er í augnablikinu í láni hjá Lilleström í Noregi en hann stefnir á að setjast að á Íslandi í framtíðinni.

„Árið 2017 er ég búinn að vera á Íslandi í sjö ár. Fótboltaferillinn er ekki að eilífu og sá dagur kemur að lappirnar virka ekki jafn vel og þá þarftu að fara yfir í raunveruleikann og fara að vinna eitthvað annað," sagði Gary við Fótbolta.net.

„Ég á konu og fjölskyldu á Íslandi og framtíð mín er á Íslandi. Að fá ríkisborgararétt hjálpar mér að fá sömu réttindi og allir Íslendingar og það verður auðveldara að finna vinnu."

„Auðvitað þarf ég að læra tungumálið og það er eitthvað sem ég ætla að byrja á að gera þegar ég sný aftur í næsta mánuði. Ég vil gefa eitthvað til baka fótboltalega séð því Ísland hefur gefið mér mikið. Ég myndi til dæmis vilja þjálfa krakka eða eitthvað slíkt."


Gary verður 26 ára í næstu viku en hann segist glaður taka kallinu ef íslenska landsliðið myndi óska eftir kröftum hans einhverntímann í framtíðinni.

„Ef ég yrði beðinn um að spila með landsliðinu þá myndi ég að sjálfsögðu segja já. Ísland hefur gert mun meira fyrir mig fótboltalega en England," sagði Gary.

„Ég er samt raunsær. Í augnablikinu er landsliðshópurinn fáránlega sterkur og ég er ekki nálægt þeim styrkleika sem framherjarnir í hópnum eru. Þeir hafa verið erlendis og spilað í sterkum deildum í mörg ár. Ef ég næ að skora mörk í stærri deild og spila þá getur allt gerst. Fyrst þarf ég samt að fá ríkisborgararéttinn, það er byrjunin."
Athugasemdir
banner
banner
banner