Díaz á förum frá Liverpool - Newcastle fær markvörð Burnley - Man City ætlar að losa sig við reynda leikmenn
   fim 13. janúar 2005 06:00
Hafliði Breiðfjörð
Er Keflavík með Fótbolta.net í fjölmiðlabanni?
Mynd: Merki
Svo virðist sem Keflavík sem leikur í efstu deild karla hér á landi sé með Fótbolta.net í fjölmiðlabanni en félagið hefur hvorki séð sér fært að boða Fótbolti.net á fréttamannafundi, senda okkur fréttatilkynningar né heldur að svara fyrirspurnum okkar.

Fótbolti.net er vinsælasta vefsíða landsins sem fjallar um fótbolta en á þriðja tug þúsunda innlita eru á síðuna á degi hverjum. Öll félögin í efstu deild hér á landi hafa verið dugleg við að boða okkur á fréttamannafundi enda hefur umfjöllun okkar í kjölfarið ávallt verið vegleg. Til að undirstrika veru okkar á markaðnum sendum við þó bréf á öll félög deildarinnar síðastliðið haust þar sem við báðum um að munað yrði eftir okkur þegar sendar yrðu fréttatilkynningar og fundir boðaðir. Svo virðist hinsvegar vera að Keflvíkingum sé eitthvað í nöp við okkur.

Þetta fór okkur að verða ljóst 16. desember síðastliðinn þegar Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari liðsins en þá var fjölmiðlum landsins send fréttatilkynning um málið en vinsælasta vefsíða landsins sem fjallar um fótbolta, Fótbolti.net, var skilin út undan og ekki tilkynnt um ráðninguna.

21. desember var svo boðað til blaðamannafundar í Keflavík þar sem Guðjón skrifaði undir samning við félagið auk þess sem tilkynnt var um félagaskipti nokkurra leikmanna. Aftur hunsaði félagið okkur í þetta skiptið og því ákváðum við að leita skýringa hjá Rúnari Arnarsyni formanni félagsins.

Rúnar baðst afsökunar á því að við værum ekki látnir vita en sagði sökina þó ekki vera sína heldur Ásmundar Friðrikssonar framkvæmdastjóra. Daginn eftir baðst Ásmundur svo afsökunar á því að við værum ekki látnir vita af fundum og sagði að úr þessu yrði bætt.

Fyrir síðustu helgi, fimmtudaginn 6. janúar eftir því sem við komumst næst, boðaði Keflavík svo aftur til blaðamannafundar og eins og áður var Fótbolti.net hunsaður í þeirri boðun.

Eitthvað voru þeir Keflvíkingar hinsvegar óhressir með frammistöðu blaðamanna á fundinum og Ásmundur Friðriksson framkvæmdastjóri ritaði grein á vefsíðu félagsins þar sem hann gagnrýndi lélega umfjöllun íslenskra fjölmiðla um það efni sem kom fram á fundinum í grein sem bar fyrirsögnina, ,,Fúl blaðamennska".

Í greininni segir orðrétt: ,,Fjölmiðla, blaða og íþrótta fréttamenn ættu að líta til þess að samstarf þeirra við íþróttafélögin eru ekki aðeins aðra leiðina."

Furðulegt orðalag hjá Keflvíkingum sem hafa verið duglegir að biðja Fótbolta.net um setja inn tilkynningar um hin ýmsu mót félagsins þegar þá hefur vantað sérstaklega kynninguna en hunsa okkur í önnur skipti. Má því segja að orðin hafi snúist í höndunum á framkvæmdastjóranum.

Eftir að hafa séð greinina eftir Ásmund á vefsíðu félagsins hafði undirritaður samband við Ásmund með tölvupósti þriðjudaginn 11. janúar og krafðist skýringa á því að Fótbolti.net fengi aldrei tilkyningar frá félaginu.

Ekkert svar hefur enn borist frá Keflavík sem virðist ekki einu sinni ætla að svara fyrirspurnum okkar hvað þá annað.

Ekki grunar okkur hvað það gæti verið sem við gerðum á hlut Keflvíkinga en það verða þeir að eiga við sjálfa sig.

Við höfum góða heimildamenn í Keflavík og höfum verið manna fyrstir með fjölda félagaskiptafrétta úr Keflavík síðan leiktíðinni lauk. Þannig greindum við fyrstir frá því að Haraldur Freyr Guðmundsson og Þórarinn Kristjánsson hafi verið seldir frá félaginu. Við birtum fyrstir fréttir af viðræðum Völsungs við fyrirliðann Zoran Ljubicic, fréttir af Gesti Gylfasyni og Ásgrími Alberssyni og fleira.

Af því má ráða að við höfum reynt af fullu afli að sinna fréttaflutningi af Keflavík en þó er alltaf leiðinlegt þegar félag telur sig yfir ákveðna fjölmiðla hafið.

Hafliði Breiðfjörð
Athugasemdir
banner
banner