Tryggvi Guðmundsson fyrrverandi landsliðsmaður Íslands á von á að Jóhann Berg Guðmundsson fari í framlínu íslenska landsliðsins í leiknum gegn Króatíu á laugardaginn.
Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru meiddir og geta ekki spilað leikinn og því vantar nýjan mann í framlínuna.
Ísland vann 2-0 sigur á Tyrklandi í síðasta leik og þá var Alfreð frammi með Jóni Daða Böðvarssyni. Aron Einar Gunnarsson fyrirliði liðsins tók út leikbann í þeim leik og þá var Birkir Bjarnason á miðri miðjunni.
„Ég var að sjálfsögðu ánægður með Tyrkjaleikinn og fannst hann næstum því fullkominn," sagði Tryggvi við Fótbolta.net.
„Ég myndi ekki vilja breyta byrjunarliðinu frá þeim leik en það er augljóst að við þurfum að gera það. Þá finnst mér líklegast að fyrirliðinn komi inn í liðið sem þýðir að Birkir Bjarna fer aftur út á kantinn og Jói Berg gæti farið upp á topp með Jóni Daða."
„Ég held að Heimir sé að hugsa það. Ekki of miklar breytingar en eiginlega það sem hægt er að gera til að koma fyrirliðanum inn."
Margir vilja sjá Viðar Örn Kjartansson fá tækifærið í framlínunni eftir að hann hefur staðið sig vel með félagsliðum sínum en Tryggvi á von á að bið verði á því tækifæri að sinni.
„Ég hefði viljað gefa Viðari tækifæri það og vil að hann fari að fá að sýna sig aðeins," segir Tryggvi. „En enn og aftur held ég að það verði litið framhjá honum. Einmitt útaf þessu, við þurfum að koma Aroni Einari inn á einhvern hátt."
Athugasemdir