Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 20. desember 2016 17:00
Magnús Már Einarsson
EM ævintýri Íslands - Ronaldo fór í fýlu eftir jafntefli í St. Etienne
Ísland 1 - 1 Portúgal.
Ísland 1 - 1 Portúgal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason jafnar....
Birkir Bjarnason jafnar....
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
......og fagnar.
......og fagnar.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Tyrkneski dómarinn Cuneyt Cakir flautar af.
Tyrkneski dómarinn Cuneyt Cakir flautar af.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson, Eggert Magnússon, Dorrit Moussaeff og Ólafur Ragnar Grímsson fóru fagnandi inn á völlinn eftir leik.
Geir Þorsteinsson, Eggert Magnússon, Dorrit Moussaeff og Ólafur Ragnar Grímsson fóru fagnandi inn á völlinn eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dorrit og Ólafur fengu mynd með manni leiksins, Hannesi.
Dorrit og Ólafur fengu mynd með manni leiksins, Hannesi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason fagnar með félögum sínum eftir leik.
Kári Árnason fagnar með félögum sínum eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið sem er að líða er það eftirminnilegasta í fótboltasögu Íslands. Íslenska landsliðið fór alla leið í 8-liða úrslit á EM eftir frækna frammistöðu og 2-1 sigur á Englandi í 16-liða úrslitum. Fótbolti.net ætlar næstu dagana að rifja upp leikina fimm sem Ísland spilaði á EM í Frakklandi í sumar. Við byrjum á fyrsta leik gegn Portúgal.



Ísland 1 - 1 Portúgal (14. júní)
0-1 Nani ('31)
1-1 Birkir Bjarnason ('51)
Nánar um leikinn
Ísland mætti Portúgal í fyrsta leik á EM í sumar. Þá bjuggust fæstir í heiminum við því að þessi lið myndu fara jafn langt í mótinu og raunin varð. Ísland fór alla leið í 8-liða úrslit á meðan Portúgal endaði á því að verða Evrópumeistari, þrátt fyrir að vinna ekki leik í
riðlakeppninni.

Gylfi Þór Sigurðsson var nálægt því að skora strax á 3. mínútu leiksins en Rui Patricio varði frá honum. Hannes Þór Halldórsson varði skalla Nani á magnaðan hátt áður en sá síðarnefndi náði að koma koma Portúgal yfir á 31. mínútu.

Portúgal leiddi í leikhléi en á 51. mínútu varð allt tryllt hjá íslensku þjóðinni. Jóhann Berg Guðmundsson átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Birkir Bjarnason skoraði með skoti á lofti. Fyrsta mark Íslands á stórmóti staðreynd!

Í viðbótartíma fékk Cristiano Ronaldo tvívegis tækifæri til að skora úr aukaspyrnu og tryggja Portúgölum sigur en honum brást bogalistin.

Neðst í fréttinni má sjá svipmyndir úr leiknum

Ronaldo fúll eftir leik
Cristiano Ronaldo tók úrslitunum ekki vel. „Þeir fögnuðu eins og þeir hefðu unnið Evrópumótið. Það er hugsunarháttur þess litla. Þess vegna munu þeir aldrei vinna neitt," sagði Ronaldo um íslenska liðið eftir leik. Auk þess neitaði Ronaldo að taka í hendur íslensku leikmannanna eftir leik. Á Twitter var mikið gert grín að Ronaldo erlendis en meðal annars var spurt að því hvort búið væri að ná honum upp úr vasanum á Kára Árnasyni. Kári lét Ronaldo einnig
heyra það til baka í viðtali eftir leik
.

Aron fékk ekki treyju Ronaldo
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, reyndi að skiptast á treyjum við Ronaldo eftir leik en án árangurs. Liðsfélagar Arons ákváðu að grínast í honum en þeir gáfu honum Portúgal treyju nokkrum dögum síðar. Treyjan var að sjálfsögðu merkt Ronaldo.

Hannes bestur
Í einkunnagjöf Fótbolta.net eftir leik fékk markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson 9 í einkunn en hann var maður leiksins. Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Gylfi Þór Sigurðsson Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson fengu allir 8.

Stuðningsmennirnir
Rúmlega 8000 íslenskir stuðningsmenn mættu á leikinn í St. Etienne en samtals voru áhorfendur 38,742 á leiknum. Fyrir leikinn var gífurleg stemning í Fanzone í St. Etienne þar sem Tólfan stýrði söngvum. 25 mínútum fyrir leik söng stúkan öll lagið vinsæla, „Ég er kominn heim," sem Óðinn Valdimarsson gerði svo frægt en stemningin á því augnabliki var mögnuð.

Eggert skýjum ofar - Júhú!
Eggert Magnússon, fyrrum formaður KSÍ, var skýjum ofar í viðtali eftir leik. Við mælum með "Júhú" öskri Eggerts eftir 45 sekúndur í myndbandinu. Geggjað!

I promise you!
Böðvar Bergsson var mjög bjartsynn í Fanzone fyrir leikinn. Hann spáði því að Ísland myndi fara í 8-liða úrslit. „Ég er pottþéttur á því. Ég lofa því. Við förum í 8-liða úrslit. I promise you!" sagði Böðvar og sú spá hans átti heldur betur eftir að rætast. Guðrún Inga Sívertsen varaformaður KSÍ sagðist eftir leikinn ekki ætla heim fyrr en í julí. Það rættist líka!

Hörður Sævar Óskarsson átti einnig frábæra spá í viðtali á RÚV fyrir leikinn. 1-1, Nani og Birkir Bjarna skora. Einfalt mál!

Leikmenn settu met
Kolbeinn Sigþórsson var gífurlega öflugur í loftinu en hann vann 18 skallabolta gegn Portúgal. Kolbeinn hljóp einnig hraðast allra leikmanna í fyrstu umferð riðlakeppninni en hann mældist á 32 kílómetra hraða gegn Portúgal. Hannes Þór Halldórsson varði síðan langflest skot af öllum markvörðum í fyrstu umferð eða 10 talsins.

Heimsfrægðin byrjar
Úrslitin vöktu mikla athygli hjá hinum ýmsu erlendu fjölmiðlum. Ísland stimplaði sig ennþá betur inn á fótboltakortið.....og þetta var bara byrjunin á EM ævintýrinu.

Sagt eftir leik

Birkir Bjarnason
„Þetta var fullkomið augnablik fyrir Jóa að setja hann á fjær. Það var eins og boltinn væri í mínútu í loftinu en ég náði góðu skoti og að skora."

Gylfi Þór Sigurðsson
„Ég held að ég hafi fengið boltann 5-6 sinnum í leiknum en við fengum eitt stig og það er það sem skiptir máli."

Ari Freyr Skúlason um Ronaldo
„Hann var að pirra sig allan leikinn, henda sér niður og veifa höndunum."

Kári Árnason
„Fyrir leikinn þá hefðum við tekið þetta jafntefli. Við ætlum að vinna þennan riðil, svo einfalt er það. Við ætlum bara að vinna næstu tvo leiki."

Jóhann Berg Guðmundsson
„Ronaldo og fleiri voru tuðandi og sögðu eftir leikinn að við hefðum bara legið til baka og verið að verjast. Við hverju bjóst Portúgal? Að við myndum fara all out attack, leyfa honum að fá svæði til að skora. Við vorum að sjálfsögðu ekki að fara að gera það. Við vorum að sitja og nota löngu boltana."

Twitter færslur leiksins




Markvarsla Hannesar frá Nani

Markið hjá Nani



Markið hjá Birki Bjarna


Athugasemdir
banner
banner
banner