Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mið 08. mars 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Eyjamenn gætu misst tvo leikmenn í júlí vegna Gullbikarsins
Pablo Punyed í leik með ÍBV.
Pablo Punyed í leik með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pablo Punyed og Derby Carrillo, leikmenn ÍBV, gætu misst af nokkrum leikjum með liðinu í júlí þar sem landslið El Salvador er að taka þátt í Gullbikarnum á sama tíma.

Báðir hafa þeir verið í landsliðinu hjá El Salvador undanfarin ár. Pablo var síðast valinn í landsliðshóp í vetur en Derby var ekki með þar sem hann var að jafna sig eftir aðgerð.

Derby er nú að komast í gang á nýjan leik eftir aðgerðina en Halldór Páll Geirsson hefur varið mark ÍBV í Fótbolta.net mótinu og Lengjubikarnum í vetur.

El Salvador er með Mexíkó, Jamaíka og Curacao í riðli í Gullbikarnum en á mótinu mætast lið frá Norður og Mið-Ameríku. El Salvador mætir Mexíkó í fyrsta leik þann 9. júlí en síðasti leikur riðilsins er gegn Jamaíka 16. júlí.

Ljóst er að Pablo og Derby missa af leikjum ÍBV gegn Breiðabliki og KA ef þeir verða valdir í landsliðshópinn. Þá gætu fleiri leikir bæst við ef El Salvador fer lengra í Gullbikarnum auk þess sem leikmennirnir gætu misst af fleiri leikjum vegna undirbúnings fyrir mótið ytra.

„Við erum meðvitaðir um þetta og undirbúum okkur fyrir þetta," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, við Fótbolta.net í dag.

Pablo og Derby léku báðir sitt fyrsta tímabil með ÍBV í fyrra en sá fyrrnefndi hefur einnig leikið með Fjölni, Fylki og Stjörnunni á ferli sínum á Íslandi.
Athugasemdir
banner
banner