Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 17. apríl 2017 08:30
Magnús Már Einarsson
Róbert Haralds: Ætlum okkur að vera í efri hlutanum
Róbert Haraldsson.
Róbert Haraldsson.
Mynd: Benóný Þórhallsson
Úr leik hjá Grindavík í Lengjubikarnum.
Úr leik hjá Grindavík í Lengjubikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Dröfn Einarsdóttir er ungur og efnilegur leikmaður í liði Grindavíkur.
Dröfn Einarsdóttir er ungur og efnilegur leikmaður í liði Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Nýliðum í efstu deild hefur oftar en ekki verið spáð neðstu tveimur sætunum en þar sem við höfum verið að bæta sterkum leikmönnum í hópinn og gengið ágætlega í leikjum undanfarið, þá hefur það eflaust haft áhrif á spána," segir Róbert Jóhann Haraldsson þjálfari Grindvíkinga en Fótbolti.net spáir liðinu 7. sæti í Pepsi-deild kvenna í sumar.

„Okkar markmið eru skýr hvað varðar Pepsi-deildina í sumar, við ætlum okkur að vera í efri hlutanum. Við erum með góða blöndu af ungum og efnilegum stúlkum ásamt eldri og reyndari leikmönnum. Hópurinn gerir sér fulla grein fyrir því hvað hann getur og við ætlum okkur að taka þátt í mótinu í sumar, en ekki bara að vera með."

„Það er svo að sjálfsögðu gamla góða sagan að einbeita sér að þremur stigum í einu og telja svo saman stigin í lokin. Við horfum líka til framtíðar, markmiðið er að kvennalið Grindavíkur festist í sessi í efstu deild og það gerum við með því að halda vel utan um heimastúlkurnar."


Róbert telur að Grindavík geti sloppið við fallbaráttuna og verið næst fyrir aftan öflugust lið landsins.

„Ef ég á að taka mið af þeim leikjum sem ég hef séð frá áramótum, þá held ég að þrjú efstu liðin verði Blikar, Valur og Stjarnan og þar fyrir aftan geti ýmislegt gerst. Þór/KA og ÍBV hafa reynslu í að hanga í efstu þremur og svo ætlum við okkur að vera með þeirri baráttu. Þá eru eftir KR, Haukar, FH og Fylkir sem væntanlega yrðu í fallbaráttunni. Annars er fótboltinn oftar en ekki óútreiknanlegur."

Nokkrar breytingar hafa orðið á hópnum hjá Grindavík frá því að liðið fór upp úr 1. deildinni síðastliðið haust. „Bentína fyrirliði er komin til baka eftir barneignafrí, María og Berglind koma úr íslenskum liðum. Við skiptum út tveim erlendum útispilurum fyrir þrjá og fengum Malin frá Svíþjóð til að vera í samkeppni við Emmu um markmannsstöðuna. Kjarninn er sá sami, en hópurinn hefur stækkað og gæðin aukist."

Athygli vakti í vetur þegar Grindavík fékk þær Rilany Aguiar Da Silva og Thaisa Moreno lið liðs við sig. Þær fóru með sænska liðinu Tyresö í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2014 og eiga báðar leiki að baki með brasilíska landsliðinu. Í síðustu viku skoraði Thaisa í 6-0 sigri Brasilíu á Bolivíu. Hvernig enduðu þessir leikmenn í Grindavík?

„Það er nokkuð ljóst að lið "utan af landi" sem vinnur sér sæti í efstu deild verður að styrkja sig ef það á að vera samkeppnishæft. Við ákváðum að besta leiðin til að styrkja liðið og efniviðinn sem fyrir er, væri að fá hingað mjög sterka leikmenn sem myndu hjálpa liðinu að festa sig í efstu deild ásamt því að miðla til yngri leikmanna, setja hærri standard á æfingum og það myndi skila sér í sterkari heimastúlkum á næstu árum."

„Ég spurðist fyrir hjá réttum aðilum hvernig ég gæti náð mér í sterka leikmenn og þá fékk ég nafnið á umboðsmanni sem er með flesta leikmenn Brasilíska landsliðsins á sýnum snærum. Hann var með nokkra leikmenn sem ég skoðaði, að endingu ákvað ég að semja við Thaisu og Rilany þar sem þær höfðu spilað í Svíþjóð og að sjálfsögðu eru þær góðir leikmenn."


Grindavík hefur unnið einn leik í Lengjubikarnum, gert þrjú jafntefli og tapað einum í B-deildinni. Róbert er nokkuð sáttur við undirbúningstímabilið.

„Það hefur gengið bara nokkuð vel. Reyndar hef ég aldrei verið með allan hópinn saman í einu. Það eru alltaf einhver landsliðsverkefni, utanlandsferðir og þessar hefðbundnu fjarvistir. Hópurinn verður væntanlega allur saman kominn þegar Sara Hrund kemur frá Bandaríkjunum í byrjun maí."

„Ég hef verið að prófa ýmislegt í leikjum sem hefur gengið misvel en stefnan er að sjálfsögðu að vera búinn að fínpússa hlutina fyrir fyrsta leik. Heimastelpur hafa æft mjög vel frá áramótum og margar ungar og efnilegar stelpur fengið gífurlega mikilvægar mínútur í vor-leikjunum sem þær setja í reynslubankann,"
sagði Róbert.
Athugasemdir
banner
banner