Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 15. maí 2017 11:15
Magnús Már Einarsson
Þrenna Tryggva - Vinnuframlag Garðars til skammar
Mynd: Fótbolti.net
Garðar Gunnlaugs í leiknum í Vesturbæ í gær.
Garðar Gunnlaugs í leiknum í Vesturbæ í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, skoraði margar þrennur á ferlinum og í sumar verður hann með þrennuna eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni. Þar tekur Tryggvi fyrir þrjú málefni sem brenna á honum.

Garðar Gunnlaugs, breytingar á liði ÍBV og fyrsti sigur Víkings Ólafsvíkur eru ofarlega í huga Tryggva eftir leiki gærdagsins.

Undrandi á vinnuframlagi Garðars
Vinnuframlag Garðars Gunnlaugssonar í leik ÍA gegn KR í gær var til skammar fannst mér, bæði sóknar og varnarlega. Varnarlega setti hann enga pressu á varnarmenn KR þegar þeir fóru með boltann. Hann tók þykistu hlaup en aldrei þannig að varnarmenn óttuðust að hann væri að koma í sig. Sóknarlega fannst mér hann ekki fara í einvígin. Sem gamall framherji veit ég þegar varnarmenn eru að spila boltanum upp hvert þeir vilja senda hann og maður kemur sér þá í þau svæði. Hann var aldrei mættur í þau svæði. Ég var hálf undrandi yfir vinnuframlagi Garðars í gær. Maður sá næstum aldrei hraðabreytingu hjá honum og 60-70% af leiknum sá maður hann labba meðan allir aðrir liðsmenn voru að hlaupa. Hann er orðinn fyrirliði liðsins og þetta er alls ekki til fyrirmyndar. Ef við eigum að taka andstæðuna við Garðar þá getum við litið á Guðjón Baldvinsson framherja Stjörnunnar. Hann er úti um allt allan leikinn og gerir andstæðingum erfitt fyrir.

Áhugaverðar breytingar í Eyjum
Það var mjög áhugaverð breyting á uppstillingu og byrjunarliði ÍBV. Þetta gekk upp og þeir unnu Víking R. Þetta voru róttækar breytingar. Fimm breytingar á byrjunarliðinu og eina breytingin sem var eðlileg var að Haffi Briem kæmi aftur inn í liðið. Hann er lykilmaður í vörn ÍBV og það sýndi sig í gær hversu öflugur og hann mikilvægur hann er fyrir liðið. Aðrar breytingar voru svolítið sérstakar. Það var skipt um markvörð, Gunnar Heiðar datt út og Kaj Leó í Bartalsstovu einnig. Að fara úr 4-4-2 í 5-3-2 var líka óvænt. Þeir fengu á sig fullt af sóknum og Víkingar fengu færi og þeir áttu meðal annars skot í stöng. ÍBV hélt hins vegar hreinu og vann mikilvægan heimasigur. Kristján, þjálfari ÍBV, fær hrós fyrir að þora þessum miklu taktísku breytingum og fyrir að þora að taka þessa stóru stólpa út fyrir aðra leikmenn.

Ólafsvíkingar komnir á kortið
Þetta var frábær útisigur hjá Ólsurum í gær. Það eru allir spekingar búnir að dæma þá niður. Þeir byrjuðu mótið ekki vel og voru með 0 stig þegar þeir mættu Grindvíkingum sem voru í ham með fjögur stig eftir tvær umferðir. Sigurinn var ekki einu sinni tæpur hjá Ólsurum heldur virkilega glæstur. Sigurinn kemur þeim inn á kortið aftur og gerir fallbaráttuna ennþá meira spennandi. Þeir ná fyrsta sigurleiknum í Grindavík og það er ekki auðvelt að fara þangað. Ólsarar eiga allt hrós skilið fyrir að mæta í Grindavík með bringuna út, hausinn upp og vinna verðskuldaðan sigur. Það er gaman að sjá að þeir séu komnir með þrjú stig og það séu lið fyrir neðan þá í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner