Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 06. júní 2017 16:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í Inkasso: Erum núna með leikmenn sem nenna að verjast
Leikmaður 5. umferðar - Arnar Darri Pétursson (Þróttur R.)
Arnar Darri í leiknum á föstudag.
Arnar Darri í leiknum á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Darri Pétursson er leikmaður 5. umferðar í Inkasso-deildinni en hann stóð vaktina vel í marki Þróttar í 2-0 sigri á Keflavík á föstudaginn. Þróttarar eru á skriði í Inkasso-deildinni en þeir hafa unnið fjóra leiki í röð.

„Mér finnst við aldrei vera að missa tökin á leikjunum fyrir utan fyrsta leikinn gegn Haukum. Það er þvílíkur munur á varnarleiknum núna og í fyrra," sagði Arnar Darri við Fótbolta.net í dag.

Þróttarar hafa fengið á sig fjögur mörk í fyrstu fimm leikjunum í sumar eftir að hafa fengið 50 mörk á sig í Pepsi-deildinni í fyrra.

„Við erum búnir að fá okkur eitt mark úr opnu spili á þessari leiktíð, restin er úr föstum leikatriðum. Núna erum við með leikmenn sem nenna að verjast. Það er ekkert öðruvísi sem við höfum gert miðað við í fyrra. Núna erum við með leikmenn sem vilja spila á Íslandi og vilja spila fyrir þetta lið."

Arnar Darri kom til Þróttar frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni fyrir síðasta tímabil.

„Ég er virkilega ánægður með félagið í heild, stuðningsmennina og stjórnina. Það er virkilega vel hugsað um mann. Ég þurfti aðeins minna batterí til að ná mér á strik aftur. Það er metnaður hjá Þrótti. Þjálfarinn Gregg Ryder er frábær og metnaðurinn sást í vetur þegar Steini Þuru (Þorsteinn Magnússon markmannsþjálfari) fór til Grindavíkur. Þá sóttu þeir markmannsþjálfara til Englands. Þeir eyða pening í að vilja gera mig betri. Það er rosalega mikill metnaður í þessu hjá þeim."

Arnar Darri og kærasta hans eiga þrjá hunda og á heimilinu eru einnig tveir hvolpar sem eru þó á leiðinni til nýrra eigenda.

„Mér finnst mjög gaman að eiga hunda. Þegar ég var í Stjörnunni var ein tíkin okkar að eignast hvolpa. Ég þurfti að hjálpa til við það og ég missti af æfingu út af því. Ég hringdi í Rúnar Pál og sagði við hann að hundurinn minn væri að fæða hvolpa. Ég var kallaður hundahvíslarinn eftir það," sagði Arnar Darri og hló.

Sjá einnig:
Bestur í 4. umferð - Emil Ásmundsson (Fylkir)
Bestur í 3. umferð - Víðir Þorvarðarson (Þróttur)
Bestur í 2. umferð - Andy Pew (Selfoss)
Bestur í 1. umferð - Andrés Már Jóhannesson (Fylkir)
Athugasemdir
banner
banner
banner