fös 30. júní 2017 14:00
Magnús Már Einarsson
Draumur Guðna að fá þak yfir völlinn - Gervigras ekki á dagskrá
Fra Laugardalsvelli
Fra Laugardalsvelli
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vonast til að geta kynnt hugmyndir um uppbyggingu Laugardalsvallar í ágúst næstkomandi.

„Við erum með gamlan völl sem er 20-30 árum á eftir þróun í heiminum. Ef við ætlum að reyna að viðhalda þessum árangri þá verðum við að gera endurbætur á Laugardalsvelli," sagði Guðni í Innkastinu á Fótbolta.net í dag.

„Við höfum verið á undanþágu út af búningsaðstöðu og annað og völlurinn er barns síns tíma. Við erum búin að vinna á fullu í því hvað þarf að gera og hvaða valkosti við höfum. Við höfum unnið í þessum með Reykjavíkurborg, aðaleiganda vallarins, og ríkinu líka."

„Það er búið að greina þetta og núna er verið að grandskoða málið ennþá frekar til að komast að einhverri niðurstöðu. Sú niðurstaða verður ekki okkar hjá KSÍ eingöngu. Við þurfum að reiða okkur á opinbera aðila. Vonandi kemur fljótlega niðurstaða úr því og þá verður það kynnt."


Óbreytt ástand kallar á varavöll erlendis
Guðni segir að KSÍ vilji halda áfram með venjulegt gras á Laugardalsvelli í stað þess að fara yfir á gervigras.

„Við erum að miða við náttúrulegt gras. Það er bara eitt landslið í Evrópu sem er að spila á gervigrasi og það er Kasakstan. Við viljum náttúrulega grasið," sagði Guðni.

Á næsta ári hefst ný þjóðadeild UEFA en þar er meðal annars spilað í mars og nóvember. Ísland gæti fengið heimaleiki í þessum mánuðum og draumur Guðna er að fá færanlegt þak sem hægt er að setja yfir völlinn þegar veðrið er vont.

„Það er besta lausnin út frá fótboltalegu sjónarmiði. Þá verður þetta fjölnota leikvangur þar sem hægt er að halda stóra tónleika og svoleiðis."

„Ef við setjum upp þak þá getum við spilað örugglega bæði í mars og nóvember. Þetta kostar allt og það er verið að rýna í þetta."


Ef staðan á Laugardalsvelli breytist ekki þá gæti Ísland þurft að spila heimaleiki í þjóðadeildinni í mars og nóvember í öðru landi.

„Við þyrftum að vera með varavöll ef við erum að fara í vetrarleiki. Þá þyrftum við mögulega að spila í Færeyjum eða Kaupmannahöfn ef ástandið verður óbreytt. Við gætum fengið undanþágu með leiktíma á heimaleikjum til að byrja með en ef ástandið er þannig að það er ekki hægt að spila þá þyrftum við að hafa varavöll til reiðu."

Sæti fyrir 17-20 þúsund áhorfendur
Ekki hefur ennþá verið ákveðið hver sætafjöldi verður á nýjum leikvangi.

„Þetta veltur svolítið á því hvaða valkostur verður fyrir valinu en við erum að horfa á 17-20 þúsund áhorfendur," sagði Guðni.

„Við yrðum alltaf raunsæ með stækkun vallarins. Þó að við gætum selt 30 þúsund miða á einstaka leiki þá erum við ekki að fara að byggja 30 þúsund manna völl. Við viljum ekki vera með of stóran völl þannig að við þurfum að vera skynsöm þó við getum selt meira á einhverja leiki."

Eins og fyrr segir verða hugmyndir að nýjum leikvangi líklega kynntar í ágúst en hvenær gæti nýr leikvangur verið klár í fyrsta lagi? „Þegar líður á 2019 væri mögulega hægt að vera með tilbúinn leikvang," sagði Guðni.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Guðna í Innkastinu
Athugasemdir
banner
banner
banner