Jose Mourinho stjóri Chelsea hefur sagt Volker Roth að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum ellegar fari málið fyrir dómstóla. Roth er formaður dómaranefndar UEFA en hann gagnrýndi Mourinho harkalaga og gekk svo langt að kalla þjálfarann sigursæla "óvin knattspyrnunnar".
Gagnrýni Roth kom í kjölfar annarar gagnrýni sem Mourinho beindi að dómaranum Anders Frisk eftir leik sem hann dæmdi á milli Barcelona og Chelsea. Eftir leikinn fékk Frisk hótanir og ákvað í kjölfarið að leggja flautuna á hilluna.
Roth sagði í samtali við eitt sænsku dagblaðanna að áhrif þjálfara væru gríðarleg. "Það eru þjálfararnir sem hafa mest áhrif á stuðningsmennina og koma þeim í þann ham að hóta fólki lífláti. Við getum ekki látið það óáreitt að einn af okkar bestu dómurum neyðist til að hætta vegna þessa. Fólk eins og Mourinho er óvinir knattspyrnunnar."
"Hr. Roth hefur tvær leiðir út úr þessu máli, biðjast afsökunar eða mæta í réttarsal." sagði Mourinho. "Það er synd að Frisk skuli hafa hætt. Mér finnst samt ótrúlegt ef hann hætti vegna þess sem ég sagði. Svona gagnrýni fá hundruðir manna í knattspyrnuheiminum á hverjum degi, framkvæmdarstjórar, stjórnarmenn og leikmenn líka. Jafn reyndur dómari og Frisk hættir ekki vegna smá gagnrýni á hans störf."
Athugasemdir