Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 05. júlí 2017 11:45
Magnús Már Einarsson
Bestur í Inkasso: Var þungur á mér í byrjun móts
Leikmaður 9. umferðar - Björgvin Stefánsson (Haukar)
Björgvin fagnar marki í leiknum á laugardaginn.
Björgvin fagnar marki í leiknum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björgvin í leiknum á laugardaginn.
Björgvin í leiknum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við spiluðum mjög vel í þessum leik og betur en í mörgum leikjum í sumar. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því var að við vorum staðráðnir að mæta mjög ákveðnir til leiks og klárir frá fyrstu mínutu. Eitthvað sem hefur svolítið vantað í sumar þar sem við höfum átt það til að vera svolítið lengi í gang í sumum leikjum," sagði Björgvin Stefánsson, framherji Hauka, við Fótbolta.net í dag.

Björgvin er leikmaður 9. umferðar í Inkasso-deildinni en hann skoraði þrennu í 5-0 sigri á Leikni Fáskrúðsfirði um helgina.

„Mér persónulega gekk vel í þessum leik og þetta var klárlega minn besti leikur á tímabilinu en ég fékk líka frábæra þjónustu og það er oft þannig að það er auðveldara fyrir mann að spila vel þegar liðinu gengur vel."

Eftir leik sagði Björgvin í viðtali við Fótbolta.net að hann hefði verið vegan í þrjá sólarhringa fyrir leikinn.

„Það er nú kannski full ýkt að segja að ég sé orðinn vegan og þetta er meira svona djók hjá vinahópnum. Mér fannst ég svolítið þungur á mér í byrjun móts og undanfarið þannig ég er að prófa að taka aðeins til í mataræðinu og meðal annars sleppa því að borða kjöt. Það er kannski full snemmt að dæma um það hvort það sé að skila einhverju inni á vellinum en þrjú mörk í fyrsta leik eftir þessa breytingu er allavega ágætis VEGANesti uppá framhaldið," sagði Björgvin léttur.

Hinn 22 ára gamli Björgvin lék með Val og Þrótti R. á láni í Pepsi-deildinni í fyrra eftir að hafa raðað inn mörkum í Inkasso-deildinni með Haukum árið 2015.

„Ég fékk smjörþefinn af Pepsi deildinni á síðasta tímabili og ég veit það núna að getumunurinn á þessum tveimur deildum er mikill. Mér finnst ég samt vera nógu góður til þess að spila þar þó svo að síðasta tímabil hafi ekki gengið vel fyrir mig persónulega og ég stefni klárlega á að taka næsta skref og spila þar í framtíðinni en eins og staðan er núna þá er ég bara að einbeita mér að því gera vel fyrir Hauka og hjálpa liðinu að eiga gott tímabil."

Haukar eru 6. sæti í Inkasso-deildinni með þrettán stig eftir níu umferðir.

„Eins og þessi deild hefur verið að spilast þá virðast allir geta unnið alla og við erum ekki langt frá efstu liðum. Við eigum erfiða leiki fyrir höndum á næstunni en ef við mætum vel stemmdir í þá og sækjum góð úrslit þá verðum við í þessari toppbáráttu, alveg hiklaust," sagði Björgvin en Haukar heimsækja topplið Fylkis á föstudag.

„Við eigum Fylki á föstudaginn og það verður erfiður leikur. Fylkir er með eitt besta liðið í deildinni að mínu mati og við verðum að eiga toppleik ef við ætlum að sækja stigin þrjú á móti þeim. En eins og ég segi þá geta allir unnið alla og við ætlum okkur að mæta vel stemmdir í þann leik," sagði Björgvin að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 8. umferð - Kristinn Justiniano Snjólfsson (Leiknir F.)
Bestur í 7. umferð - Hólmar Örn Rúnarsson (Keflavík)
Bestur í 6. umferð - Ísak Óli Ólafsson (Keflavík)
Bestur í 5. umferð - Arnar Darri Pétursson (Þróttur)
Bestur í 4. umferð - Emil Ásmundsson (Fylkir)
Bestur í 3. umferð - Víðir Þorvarðarson (Þróttur)
Bestur í 2. umferð - Andy Pew (Selfoss)
Bestur í 1. umferð - Andrés Már Jóhannesson (Fylkir)
Athugasemdir
banner
banner
banner