Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 09. ágúst 2017 16:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 3. sæti: Chelsea
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Eden Hazard.
Eden Hazard.
Mynd: Getty Images
Alvaro Morata.
Alvaro Morata.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Englandsmeisturunum er spáð 3. sæti. Tvö efstu liðin verða kynnt á morgun.

Lokastaða síðasta tímabils: Englandsmeistari
Markahæstur á síðasta tímabili: Diego Costa (22)

Aftur í titilvörn
Ein erfiðasta staða sem knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni getur lent í er að verða Englandsmeistari. Hvorki Jose Mourinho né Claudio Ranieri entust til vorsins eftir að hafa lyft bikarnum eftirsótta. Dæmin eru fleiri.

Antonio Conte hefur verið að taka til í leikmannahópi Chelsea. John Terry er búinn að kveðja og halda í Championship-deildina og Diego Costa er ekki í áætlunum ítalska stjórans eins og sóknarmaðurinn fékk að vita í gegnum SMS skilaboð.

Fréttir hafa borist af pirringi Conte sem er ekki fullkomlega sáttur með félagaskiptagluggann. Hann er farinn að stuða stjórnarmenn félagsins og fróðlegt að sjá hvort það muni vinda eitthvað upp á sig.

Conte hefur passað upp á að menn sofni ekki á verðinum. Liðið hefur fengið til sín Antonio Rudiger í vörnina og miðjumaðurinn Tiemoue Bakayoko kom frá Mónakó. Það ætti að vera erfitt að brjóta sér leið í gegnum hjarta Chelsea með Bakayoko og Kante.

Alvaro Morata er kominn í fremstu víglínu og stígur út úr því að vera varaleikari í Real Madrid yfir í að vera aðalleikari hjá Chelsea. Hvernig mun hann finna sig í enska boltanum?

Tímabil Chelsea getur allavega ekki orðið verra en síðast þegar liðið var í titilvörn.

Stjórinn: Antonio Conte
Ítalinn er taktískur snillingur eins og hann sýndi enn eina ferðina á síðasta tímabili. Hann reynir alltaf að finna nýjar leiðir til að ná því allra besta út úr hópnum sem hann er með í höndunum. Færsla hans í þriggja miðvarða kerfi í október heppnaðist fullkomlega eins og frægt er. Fyrir síðasta tímabil voru margar efasemdarraddir varðandi Chelsea, talað um að Conte þekkti ekki deildina og spurningamerki sett við kaup á David Luiz. Chelsea þaggaði niður í efasemdarmönnum en í ár eru kröfurnar fyrir tímabilið meiri.

Hvað þarf að gerast?
Þú mátt segja það sem þú vilt um John Terry en það er erfitt fyrir öll félög að missa svona leiðtoga og karakter úr klefanum. Fyrirliðinn er fainn og Gary Cahill tekinn við bandinu. Ekkert lið fékk færri mörk á sig á síðustu 15 mínútum leikja á síðasa tímabili, fjögur talsins. Á sama tíma skoraði Chelsea 22 mörk. Sigurhugarfarið er svo sannarlega til staðar hjá Chelsea og það þarf til að vinna ensku úrvalsdeildina.

Lykilmaður: N'Golo Kante
Ef það er til leikmaður í þessari stöðu í heiminum þá erum við til í að sjá hann spila. Eins manns miðjuher. Kante afrekaði það að verða Englandsmeistari tvö ár í röð með sitthvoru liðinu. Hann er einfaldlega ómetanlegur.

Fylgist með: Eden Hazard
Eden Hazard er kominn í hóp eldri leikmanna Chelsea og tekur við aukinni ábyrgð. Tímabilið áður en Conte kom leit Hazard varla út eins og atvinnumaður þrátt fyrir að hafa borið titilinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni. Conte kom honum aftur á skrið. Enginn leikmaður Chelsea hefur meiri snilligáfu þegar kemur að sóknarleik og því að finna glufur á vörn andstængana.

Komnir:
Willy Caballero
Antonio Rudiger (Roma)
Tiemoue Bakayoko (Mónakó)
Alvaro Morata (Real Madrid

Farnir:
Juan Cuadrado (Juventus)
Asmir Begovic (AFC Bournemouth)
Dominic Solanke (Liverpool)
Bertrand Traore (Olympique Lyonnais)
Nathan Ake (AFC Bournemouth)
Tammy Abraham (Swansea City) Lán
Ola Aina (Hull City) Lán
Ruben Loftus-Cheek (Crystal Palace) Lán
Nathaniel Chalobah (Watford)
Marco van Ginkel (PSV Eindhoven)
Kurt Zouma (Stoke City) Lán
Tomas Kalas (Fulham) Lán
Matt Miazga (Vitesse Arnhem) Lán
Nemanja Matic (Manchester United)

Þrír fyrstu leikir: Burnley (H), Tottenham (Ú) og Everton (H)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. Chelsea 165 stig
4. Liverpool 150 stig
5. Arsenal 142 stig
6. Tottenham 140 stig
7. Everton 128 stig
8. Southampton 111 stig
9. West Ham 110 stig
10. Stoke 89 stig
11 Leicester 85 stig
12. Newcastle 82 stig
13. Bournemouth 76 stig
14. West Bromwich Albion 69 stig
15. Crystal Palace 65 stig
16. Watford 40 stig
17. Burnley 33 stig
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner
banner