Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 20. ágúst 2017 17:00
Þórður Már Sigfússon
Úttekt: Laugardalsvöllur og mýtan um uppselda leiki
Blálitaður Laugardalsvöllur.
Blálitaður Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, mun vonandi brátt kynna hugmyndir að nýjum Laugardalsvelli.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, mun vonandi brátt kynna hugmyndir að nýjum Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Pétur Marteinsson kemur að hugmyndarvinnu um nýjan Laugardalsvöll.
Pétur Marteinsson kemur að hugmyndarvinnu um nýjan Laugardalsvöll.
Mynd: Fótbolti.net
Laugardalsvöllur er ólíkt flestum keppnisvöllum evrópskra knattspyrnuþjóða, lítill og opinn.
Laugardalsvöllur er ólíkt flestum keppnisvöllum evrópskra knattspyrnuþjóða, lítill og opinn.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ, var talsmaður stærri Laugardalsvallar og kom núverandi hugmyndavinnu á koppinn.
Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ, var talsmaður stærri Laugardalsvallar og kom núverandi hugmyndavinnu á koppinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á meðan Laugardalsvöllur bíður löngu tímabærrar yfirhalningar halda áfram að berast fréttir af stórhuga og framkvæmdaglöðum þjóðum úr mörgum kimum Evrópu. Þetta eru þjóðir sem telja nú skynsamlegt að byggja nýja eða endurbyggja þjóðarleikvanga sína.

Margar evrópskar knattspyrnuþjóðir hafa á undanförnum áratug tekið til í sínum málum og hafa ýmsar ástæður legið þar að baki.

Þessi mannvirki voru komin á aldur undir lok tíunda áratug síðustu aldar en um það leyti skall fyrsta uppbyggingaraldan á álfuna. Niðurstaðan voru nútímalegir leikvangar sem voru einskorðaðir við knattspyrnu en langflestir forvera þeirra höfðu verið spyrtir við breiðar hlaupabrautir sem takmörkuðu upplifun stuðningsmanna á knattspyrnuleikjum.

Þessi þróun hefur leitt til þess að Laugardalsvöllurinn er einn af elstu leikvöngum Evrópu sem notaðir eru að staðaldri í keppnisleikjum í undankeppnum EM og HM. Hann er auk þess einn af fáum leikvöngum sem eftir standa með hlaupabrautir umhverfis.

Bið Ungverja eftir nútímalegum þjóðarleikvangi á enda
Ein þeirra þjóða sem staðið hafa í svipuðum sporum og Íslendingar er hin fornfræga knattspyrnuþjóð, Ungverjar, en þeir eru að jafna frægan þjóðarleikvang í Búdapest við jörðu um þessar mundir.

Hinn 40 þúsund sæta Púskas Ferenc Stadion hefur frá því í vor verið kerfisbundið hlutaður niður en ráðgert er að nýr og glæsilegur 70 þúsund sæta leikvangur rísi upp á sama stað. Leikvangur sem mun hýsa nokkra leiki á EM 2020.

Ólíkt gamla leikvanginum mun engin hlaupabraut hverfast um grasvöllinn en ungverskir knattspyrnuáhangendur hafa um árabil kallað eftir aðskilnaði frjálsra íþrótta og knattspyrnu á þjóðarleikvanginum.

Þessir skoðanabræður íslenskra knattspyrnuunnenda hafa loks náð sínu framgegnt og vonandi mun þessi þróun teygja anga sína hingað sem fyrst.

Nýji þjóðarleikvangurinn í knattspyrnu mun bera sama nafn og fyrirrennarinn, Púskas Ferenc Stadion, enda við hæfi að nefna helsta athvarf ungverskrar knattspyrnu eftir dáðasta knattspyrnusnillingi þjóðarinnar.

Framkvæmdum mun ljúka síðla árs 2019, rúmu hálfu ári áður en EM 2020 gengur í garð. Það vekur hins vegar athygli að nýji leikvangurinn mun rúma 43% fleiri sæti en sá eldri en einungis var uppselt á keppnisleiki á vellinum í 8 skipti frá árinu 1986 fram á þennan áratug, eða í um 14,8% leikja.

Mýtan um uppselda leiki
Þegar umræðan um nýjan og endurbættan Laugardalsvöll hefur skotið upp kollinum og ímyndaðar tölur um hugsanlega stærð hans eru reifaðar, berst oft ómur óánægjuradda um landið þvert og endilangt. Fullyrt er að 17 – 20 þúsund sæta völlur muni kannski ná að fyllast einu sinni á tveggja til þriggja ára fresti. En þá er verið að miða við að landsliðið sé í lægð.

Í dag væri hins vegar hægt að selja 20 þúsund miða á hvern einasta keppnisleik sem háður er á Laugardalsvellinum.

Uppselt var á keppnisleiki á áðurnefndum leikvangi í Ungverjalandi á um fjögurra ára fresti en það fældi ekki stjórnvöld frá því að taka ákvörðun um að byggja nýjan leikvang með 30 þúsund fleiri sætum.

Norðaustar í álfunni tók Eistland í notkun glæsilegan 10 þúsund sæta leikvang árið 2001. Sá leikvangur hefur fyllst á um tveggja og hálfs árs fresti en segja má að einn heimaleikur í hverri undankeppni seljist upp.

Og hvað gerðu þarlend stjórnvöld? Jú, það var samþykkt að byggja ennfrekar við völlinn og stækka hann um helming og mun hann rúma 15 þúsund áhorfendur í sæti innan tíðar.

Ein af röksemdarfærslum stækkunarinnar var athyglisverð en þar stóð að í ljósi mikils áhuga stuðningsmanna landsliðsins á að sækja heimaleiki þegar stórþjóðir bæru að garði væri skynsamlegt að stækka leikvanginn svo fleiri stuðningsmenn geti notið þessa stórkostlegu viðburða.

Önnur austantjaldsþjóð, Kasakstan, sá ástæðu til að byggja nýjan og glæsilegan leikvang árið 2009 með sjö þúsund fleiri sætum en fyrirrennarinn. Nýji leikvangurinn, Astana Arena, rúmar 30 þúsund manns í stað þeirra 23 þúsund sæta sem voru í boði á gamla leikvanginum.

Það var ákveðið að fara í þessar framkvæmdir þrátt fyrir að einungis þrír keppnisleikir af 17 hefðu selst upp á gamla leikvanginum frá árinu 2004 en þá gerðist þjóðin gerðist meðlimur að UEFA. Keppnisleikir Kasakstan höfðu þá selst upp á tveggja ára fresti.

Og hvað var það sem réttlætti ákvörðun slóvenska knattspyrnusambandsins að reisa þjóðarleikvang í Ljubljana með 16 þúsund sætum þegar keppnisleikir á gamla leikvanginum, sem var töluvert minni, seldust einungis upp í tvö skipti frá 1998 til 2006. Það þýðir að það liðu að meðaltali fjögur ár á milli leikja þegar völlurinn fylltist. Samt sem áður var tekin ákvörðun um 60% stækkun.

Vægi uppseldra leikja í alþjóðlegum keppnisleikjum er mýta. Staðreyndin er sú að þeir eru mun sjaldgæfari en fólk gerir sér grein fyrir. Þess í stað er frekar hugsað til þess að sem flestir geti notið þeirra leikja þegar stórþjóðir og heimsfrægir knattspyrnumenn reka á fjörurnar. Það er frekar horft á toppanna í stað meðaltalsins.

95% sætanýting Laugardalsvallar
Sætanýting Laugardalsvallar í keppnisleikjum er sú besta í Evrópu ef miðað er við útreikninga frá 2006 til dagsins í dag. Sætanýtingin er um 95% yfir þetta tímabil en ef miðað er við síðustu fjögur ár er nýtingin 98%. Ástæða þess að ekki er um að ræða 100% nýtingu undanfarin fjögur ár er sú að upp hafa komið tilvik þar sem útivallarliðið nær ekki að selja alla sína miða og ekki hefur verið unnt að koma þeim í sölu til íslenskra stuðningsmanna.

Um er að ræða einstakt afrek í alþjóðlegri knattspyrnu en jafnháar tölur varðandi sætanýtingu eru vandfundnar þar sem oft á tíðum er erfitt að fá fólk á völlinn. Það er mun erfiðara að fá fólk á völlinn í alþjóðlegum keppnisleikjum en t.a.m. á deildarleiki hjá félagsliðum.

Ef við skoðum t.a.m. sætanýtinguna í Ungverjalandi, þar sem nýr og mun stærri völlur mun brátt taka við af eldri Púskas Ferenc leikvanginum, kemur í ljós að hún er einungis um 63% að meðaltali síðastliðin tíu ár.

Hins vegar hefur hún hækkað hægt og bítandi á síðastliðnum árum enda hefur ungverska landsliðið tekið stórstígum framförum í alþjóðaknattspyrnu og var m.a. þátttakandi á EM í Frakklandi í fyrra.

„Við getum ekki setunnar boðið félagar," hafa forkálfar ungverska knattspyrnusambandsins örugglega látið út úr sér í þessum óvænta uppgangi. „Nú er tíminn til að byggja!".

Og þeim varð svo sannarlega að ósk sinni.

Í Eistlandi hefur sætanýtingin undanfarin 10 ár verð 77% og 66% í Slóveníu. Þrátt fyrir það hefur sætum verið fjölgað í nýjum leikvöngum hjá báðum þjóðum og er nú til umræðu í Slóveníu að stækka leikvanginn enn frekar, úr 16 þúsund sætum í 20 þúsund sæti.

Hérlendis er status quo. Reyndar eru hlutaðeigandi aðilar í viðræðum bak við luktar dyr en þær hafa staðið yfir í nokkurn tíma en blessunarlega styttist í ákvörðunartöku. Vonandi.

Íslenskir stuðningsmenn yfirgefa landsliðið ekki svo glatt
Ef áðurnefndar tölur eru skoðaðar er ljóst að Íslendingar standa vel að vígi samanborið við aðrar þjóðir þegar aðsókn á keppnisleiki er skoðuð.

Líkt og með sætanýtinguna gefa tölur um uppselda leiki frá aldamótum til kynna að Íslendingar eru ekki tilbúnir að gefa landsliðið upp á bátinn þó á móti blási.

Þegar árangur þjóða dvínar fylgir algjört hrun í aðsókn oft í kjölfarið en á Íslandi virðist raunin vera önnur. Alla vega á síðustu misserum.

Því til sönnunar er góð aðsókn íslenskra stuðningsmanna á keppnisleiki í undankeppni EM 2008. Þar unnu Íslendingar einungis tvo leiki af 12 og biðu m.a. eitt versta afhroð í íslenskri knattspyrnusögu þegar 0-3 tap gegn Liechteinstein leit dagsins ljós haustið 2007. Í þessari tilteknu undankeppni var sætanýtingin á Laugardalsvelli 79,5%.

Ekki minnkaði aðsóknin í undankeppninni sem fylgdi í kjölfarið og var sætanýtingin þá 82,7%, þrátt fyrir að einungis einn sigur hafi litið dagsins ljós í átta leikjum. Þessar tölur sjást oft í góðu árferði hjá einstaka þjóðum en undirstrika knattspyrnuáhuga íslensku þjóðarinnar.

Hlutfall uppseldra leikja á Laugardalsvellinum á þessu fyrrnefnda tímabili (2006 - 2010) var 36% en ef allir keppnisleikir Íslands á Laugardalsvellinum frá aldamótum eru skoðaðir kemur í ljós að rúmlega helmingur allra keppnisleikja hafa selst upp; eða 47,7%. Það þýðir að að meðtali hafa liðið 10 mánuðir milli uppseldra leikja á Laugardalsvelli á þessu tímabili.

Auðvitað hefur frábær árangur undanfarna ára togað tölurnar upp á við en á síðustu fjórum árum hafa 78% keppnisleikjanna selst upp. Ef við skoðum hlutfall uppseldra leikja frá aldamótum að upphafi góðærisins (2000 – 2012) kemur í ljós að 30% keppnisleikjanna seldust upp, sem þýðir að tíminn milli uppseldra leikja var um 1,3 ár.

Enginn uppseldur leikur í vöggu knattspyrnunnar
Eins og áður sagði er vægi uppseldra leikja í alþjóðlegri knattspyrnu ofmetið. Englendingar seldu t.a.m. engan leik upp á Wembley í síðustu undankeppni og einungis einn leikur seldist upp á Parken í Danmörku. Svíar troðfylltu Friends Arena í Stokkhólmi í tvö skipti líkt og Spánverjar gerðu heimafyrir.

Þá vekur athygli að enginn keppnisleikur seldist upp hjá Belgíu í síðustu undankeppni, þrátt fyrir að belgíska landsliðið sé frábært um þessar mundir. Hins vegar er þar í bígerð stór þjóðarleikvangur í knattspyrnu sem mun rísa í náinni framtíð. Þar á að hamra járnið meðan það er heitt.

Stuðningur ítalskra knattspyrnuáhugamanna við „Gli Azzuri” hefur löngum verið umhleypingasamur og seldist t.a.m. aðeins einn leikur upp þar í landi í síðustu undankeppni.

Þessar tölur sýna fram á það að hlutfall uppseldra leikja er minna en fólk gerir sér grein fyrir en eftir sem áður er hlutfallið hátt hérlendis og er hærra í lélegu árferði landsliðsins samanborið við önnur lönd í svipaðri stöðu.
Athugasemdir
banner
banner