Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 01. september 2017 10:00
Magnús Valur Böðvarsson
Davíð Smári: Við einfaldlega tróðum sokk
Davíð Smári Lamude þjálfari Kórdrengja.
Davíð Smári Lamude þjálfari Kórdrengja.
Mynd: .
Ásgeir Frank Ásgeirsson er lykilmaður
Ásgeir Frank Ásgeirsson er lykilmaður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Unnar Illugason er fyrirliði liðsins og lykilmaður
Viktor Unnar Illugason er fyrirliði liðsins og lykilmaður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur fylgst vel með gangi mála í 4.deild karla í sumar og nú er komið að úrslitakeppninni. Þjálfarar liðanna voru teknir í létt spjall um sumarið og komandi úrslitakeppni og spurðum Davíð Smára Lamude þjálfara Kórdrengja nokkurra spurninga

Kórdrengir sigruðu A riðil eftir harða keppni um sæti í úrslitakeppninni við Hvíta Riddarann, Hamar og Kríu en þetta er fyrsta starfsár Kórdrengja í deildarkeppni á Íslandi.

Leikir Kórdrengja verða gegn ÍH
ÍH - Kórdrengir (Laug 2.september kl 13:00) Gamanferða Völlurinn
Kórdrengir - ÍH (Miðv 6.september kl 17:15) Framvöllur

Kórdrengir voru á sínu fyrsta tímabili í 4.deild í ár, hvernig finnst þér hafa tekist til á fyrsta árinu?
Mér finnst okkur hafa tekist mjög vel til, við erum allavega enn á áætlun og er planið að fara alla leið. Við erum enn að þróa okkar leik og eins og gengur og gerist í 4.deildinni er erfitt að stilla upp sama liði leik eftir leik sökum meiðsla eða vinnu leikmanna. Við höfum komið okkur langt á góðum móral, mikilli baráttugleði og fórnfýsi sem hefur þjappað hópnum saman og er ekkert skemmtilegra en æfingar og búningsklefinn fyrir og eftir leiki hjá Kórdrengjum.

Er eitthvað við deildina sem hefur komið þér á óvart?
Já ég viðurkenni það að þessi deild kom mér virkilega á óvart. Það eru mjög margir góðir leikmenn og fáir slakir leikmenn og deildin töluvert sterkari en ég bjóst við. Eins finnst mér nokkuð vel staðið að málum þ.e. vellir og vallaraðstæður og KSÍ að skila sínum málum ágætlega.

Nú þegar er komið í úrslitakeppnina er stefnan ekki alltaf sett upp um deild?
Jú stefnan var alltaf sett upp um deild. Markmiðið virtist mjög stórt í byrjun, jafnvel of stórt en með metnaði og mikilli vinnu hjá okkur sem stöndum á bakvið liðið og að sjálfsögðu leikmönnum þá erum við á réttri leið.

Hvernig lýst þér á einvígið við ÍH? Ertu búinn að skoða þá vel og hverja teluru möguleika ykkar?
Mér líst mjög vel á einvígið við ÍH, við getum ekki beðið. Það er alveg klárt mál að þetta verður spennandi stemningsleikur, Það hefur sýnt sig að við spilum aldrei betur en í leikjum þar sem mikið er undir og spennustígið hátt. Við höfum skoðað IH en það var lengi vel afar tvísýnt hvort við mundum mæta ÍH eða Augnablik en mér lýst mjög vel á þetta. Ég tel möguleika okkar mjög góða eins og gegn öðrum liðum í deildinni

Var eitthvað lið sem kom þér á óvart í deildinni?
Það sem kom mér mest á óvart voru auðvita Kórdrengir. Okkur var spáð slæmu gengi en við einfaldlega tróðum sokk. Þá kom markatala Ýmis mér mjög á óvart og verður gaman að sjá hvort markaskorun þeirra haldi áfram í úrslitakeppninni

Að lokum segðu okkur aðeins frá Kórdrengjum sem félagi?
Kórdrengir var stofnað árið 2007 og eftir titla í utandeildinni næstum ár hvert var ákveðið að fara í 4. deildina. Liðstjórn liðsins og hryggur er sá sami og frá upphafi. Lykillinn að liðinu er blandan og samsetningin innan vallar sem utan. Í Kórdrengjum eru ungir og efnilegir leikmenn sem og reynsluboltar sem miðla því sem þeir hafa lært á löngum ferli. Í liðinu eru líka menn sem hafa villst af leið í lífinu en fengið tækifæri til að snúa við blaðinu. Fyrir það erum við þakklátir og sýnir þetta hversu íþróttir eru mikilvægar fyrir marga aðila. Að lokum vil ég hvetja öll lið i úrslitakeppninni sem og leikmenn til að gera sitt allra besta í að skapa stemningu og skemmtilega vel spilaða úrslitakeppni. Takk fyrir okkur.
Athugasemdir
banner
banner