Samherjarnir Lee Bowyer og Kieron Dyer hjá Newcastle urðu sér til skammar fyrir framan 52.000 áhorfendur á St. James´s Park í dag. Aston Villa var í heimsókn og var að taka heimamenn í bakaríið en staðan var 0-3 þegar lætin hófust.
Það þurfti Gareth Barry leikmann Aston Villa og marga fleiri til að skilja ólátabelgina að en treyja Bowyer rifnaði í látunum. Báðir fengu að sjálfsögðu rautt spjald og missa af undanúrslitaleik FA bikarsins gegn Manchester United þann 17. apríl.
Barry sem skorað hafði úr tveimur vítaspyrnum sagði eftir leikinn að það hefði aldeilis komið honum í opna skjöldu að sjá samherjana slást. "Þú vilt ekki sjá þetta gerast á vellinum, það var bara rétt að reyna að stýja þeim í sundur" sagði Barry.
"Ég hef aldrei séð þetta gerast í leik sem ég hef sjálfur spilað í en það var greinilegur pirringur í gangi hjá þeim. Ef maður lítur á þessa tvo leikmenn þá vilja þeir bara gera allt til að vinna leikinn. Báðir misstu þeir sig og það var óheppilegt en ég er viss um að þeir sjá eftir þessu."
Stephen Taylor var einnig rekinn af velli fyrir verja boltann viljandi á línu og því luku Newcastle liknum aðeins 8 á vellinum. Graeme Sounes stjóri Newcastle sat á milli þeirra á blaðamannafundi eftir leikinn og þar kom þetta fram:
Lee Bowyer: Ég vil bara biðja stuðningsmennina, stjórnarformanninn, þjálfaraliðið, alla leikmenn Newcastle, alla tengda klúbbnum og fjölskyldu mína afsökunar á því sem þau urðu vitni að og það sem gerðist. Mér þykir virkilega fyrir þessu."
Kieron Dyer: Ég vil biðja liðsfélaga mína, stjórann, stjórnarformanninn, stuðningsmennina og alla sem tengjast klúbbnum afsökunar. Við erum samherjar og eigum okkar deilur en við eigum ekki að vera að slást fyrir framan 50.000 manns. Eins og ég segi þá sé ég virkilega eftir þessu sérstaklega á þessum mikilvæga tímapunkti á tímabilinu."
Smelltu hér til að sjá myndband af atvikinu
Athugasemdir