mán 25. september 2017 15:20
Magnús Már Einarsson
Gunnar Jarl: Félög leggja engan metnað í dómaramál
Gunnar Jarl Jónsson.
Gunnar Jarl Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar að störfum í Pepsi-deild kvenna í sumar.
Gunnar að störfum í Pepsi-deild kvenna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér fannst ég ekki vera lengur með þá ástríðu sem hefur verið í þessu. Ástríðan var ástæðan fyrir því að maður byrjaði að dæma á sínum tíma. Mér fannst hún ekki vera til staðar og gleðin ekki sú sama. Maður vill leggja sig 110% í þetta," sagði Gunnar Jarl Jónsson við Fótbolta.net í dag.

Gunnar Jarl hefur ákveðið að leggja flautuna á hilluna, að minnsta kosti á næsta tímabili.

„Ég byrjaði að dæma því ég vildi auka gæðin í dómgæslunni. Ég vil ekki gera sjálfum mér, leikmönnum né þjálfurum það að vera 70-80% í þessu. Ég vil vera 110%. Þess vegna fannst mér heiðarlegt gagnvart sjálfum mér og öðrum að stíga til hliðar í að minnsta kosti eitt ár. Kannski fyrir fullt og allt, maður veit það ekki. Ég lít á þetta sem pásu en kannski kemur löngunin aftur. Maður dæmir kannski í 4. deildinni í næsta sumar til að halda sér við og sjá hvort maður hafi ennþá gaman að þessu en kannski gerir maður ekkert. Það á eftir að kom í ljós hvað maður gerir."

Sér ekki eftir einni mínútu
Gunnar Jarl hefur fimm sinnum verið valinn besti dómarinn í Pepsi-deild karla af leikmönnum deildarinnar. Þá hefur hann verið FIFA dómari frá árinu 2011.

„Ég sé ekki eftir einni mínútu. Þetta er stór ákvörðun því ég er á ágætis stað í dómgæslunni. Ég er nýbúinn að fá hækkun hjá UEFA. Ég hef ferðast víða og notið þess. Það hefur verið mikil gulrót í þessu. Ég er að dæma heima en maður fer 30 daga erlendis á ári og það eru miklar skuldbindingar að vera FIFA dómari. Við þurfum FIFA dómara sem er tilbúinn að gera þetta 110% og umhverfið hér heima býður kannski ekki upp á það í dag. Ég er með sjö manna fjölskyldu og mína vinnu og áhuginn var ekki sá sami og mér fannst réttast að gefa öðrum tækifæri. Mínum tíma er lokið í bili allavega."

Langflest félög gera ekkert í dómaramálum
Gunnar Jarl segir að félög á Íslandi geti gert miklu betur í dómaramálum og mikilvægt sé að félög komi með fleiri dómara inn í starfið.

„KSÍ reynir alltaf að gera sitt besta gagnvart dómurum þó að dómarar vilji alltaf meina að það megi gera betur. Það má alveg gera betur og ég hef mínar hugmyndir um það. Auðvitað er alltaf talað um peningamál í dómaramálum. Þetta kostar mikla peninga. Félög kvarta mikið yfir dómaramálum, sérstaklega undanfarnar vikur. Að sama skapi gera langflest félög ekkert þegar kemur að dómaramálum. Félög geta verið sammála um að þau leggja engan metnað í dómaramál. Félög geta ekki einu sinni skaffað alvöru dómarabúninga fyrir dómara. Menn eru í luffsum frá Errea síðan 1990. Metnaðurinn er nánast enginn í dómaramálum. Dómararnir koma úr félögunum fyrst og fremst því menn byrja einhversstaðar að dæma," sagði Gunnar.

Býðst til að aðstoða félögin
Fáir ungir dómarar hafa komið upp undanfarin ár og Gunnari líst illa á þá þróun.

„Þetta er áhyggjuefni og félögin þurfa að gera miklu meira. Ef þau vilja fá aðstoð við það þá geta þau hringt í mig. Ég skal hjálpa þeim við það að hlúa að þessum yngri dómurum og ná meiri metnað hjá félögunum. Ég ætla ekki að gerast dómarastjóri hjá þeim en ég skal aðstoða ef þau vilja. Við þurfum að efla þetta starf hjá félögunum til að fá fleiri menn inn. Það þýðir ekki bara að þiggja og ætla aldrei að gefa af sér. Félögin þurfa að spýta meira í lófana."

„Dómaramálin eru ekki bara í höndum 2-3 manna hjá KSÍ. Það þurfa allir að hjálpast að við að gera dómaramálin eftirsóttari og meira spennandi valkost fyrir drengi og stúlkur sem eru að koma upp úr 2. flokki upp í meistaraflokk. Það er ljóst að það eru ekki allir sem spila fótbolta í meistaraflokki. Sumir hafa ekki löngunina á meðan aðrir hafa ekki getuna. Það þarf að fá fleiri til að dæma og ég væri til í að finna þetta fólk."


Fleiri símaklefar en dómarar á Akureyri
Gunnar Jarl segir að nokkrir ungir og efnilegir dómarar hafi sýnt það undanfarin ár að þeir geti náð langt.

„Ívar Orri (Kristjánsson) er búinn að eiga rosalega flott tímabil. Ég er mjög ánægður hvernig hann hefur þroskast í þessu og tekið á mjög miklu mótlæti. Helgi Mikael (Jónasson) er einn af þessum ungu sem er tilbúinn að læra mjög mikið og hefur farið alla leið í þetta. Þetta er rosalegur lífsstíll og menn þurfa að vera tilbúnir að skuldbinda sig. Ívar og Helgi hafa verið tilbúnir í það."

„Það eru fleiri að koma upp sem gætu vonandi bankað á dyrnar í 2. deildinni á næsta ári en auðvitað vantar meira. Eins og Þóroddur Hjaltalín benti á í viðtali í sumar þá eru fleiri símaklefar á Akureyri en dómarar. Símaklefum fer vonandi ekki fjölgandi á Akureyri en dómurum verður að gera það. KSÍ er með hæfileikamótun fyrir dómara en það þarf að gera ennþá meira. Það þarf að hlúa að hæfileikamótun dómara eins og leikmanna. Við þurfum að finna unga dómara og þjálfa þá upp í að verða alvöru dómarar."

„Við erum líka með aðeins eldri dómara sem hafa áhuga og metnað til að starfa í efstu deild og það þarf að búa til alvöru umhverfi til að þeir geti sinnt því. Þetta er skuldbinding og krefst þess að hafa mikinn metnað til að sinna þessu 100%. Þetta eru alvöru deildir sem er verið að spila í og það er alltaf mikið undir. Hjá KSÍ eru menn allir af vilja gerðir en auðvitað eins og alls staðar annars staðar þá vilja menn að það sé gert meira og við erum að reyna að gera það,"
sagði Gunnar Jarl að lokum.
Athugasemdir
banner
banner