Breiðablik hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að Ágúst Gylfason sé nýr þjálfari liðsins. Ágúst hefur verið þjálfari Fjölnis undanfarin ár.
Samningurinn er til þriggja ára.
„Ágúst hefur mikla reynslu að því að vinna með ungum leikmönnum og byggja upp lið sem er er góð blanda þeirra og reyndari leikmanna. Sú reynsla mun án efa nýtast Breiðabliki vel en hann er líka félaginu vel kunnur sem foreldri og sjálfboðaliði í starfinu," segir í tilkynningu.
Ágúst hefur verið hjá Fjölni í tíu ár, fyrst eitt ár sem leikmaður, þá þrjú ár sem aðstoðarþjálfari og síðastliðin sex ár sem aðalþjálfari.
„Stjórn Knattspyrnudeildar býður Ágúst hjartanlega velkominn til starfa hjá Breiðabliki," segir í tilkynningunni.
Ágúst tekur við af Milos Milojevic en á dögunum tilkynnti Breiðablik að það myndi ekki ræða við hann um nýjan samning. Sumarið var erfitt fyrir Blika en Arnar Grétarsson var óvænt rekinn frá félaginu eftir tvær umferðir. Á endanum lauk liðið tímabilinu í sjötta sæti.
Fjölnismenn voru í botnbaráttunni í sumar, enduðu í 10. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir