Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   mið 11. október 2017 13:22
Magnús Már Einarsson
Jón Þór ekki áfram með ÍA - Jói Kalli að taka við?
Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson verður ekki áfram þjálfari ÍA en þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í dag. Jón Þór tók við ÍA í ágúst þegar Gunnlaugur Jónsson lét af störfum.

„Ég hef ekkert heyrt í forráðamönnum liðsins síðan eftir lokaleik Íslandsmótsins. Þannig að ég tel 100% að ég verði ekki áfram. Ég held að það væri löngu búið að ganga frá því ef það væri í kortunum," sagði Jón Þór við Fótbolta.net í dag.

Háværar sögusagnir eru um að Jóhannes Karl Guðjónsson taki við ÍA en hann stýrði HK í 4. sætið í Inkasso-deildinni í sumar. Jóhannes Karl var eftir tímabilið valinn þjálfari ársins í deildinni af þjálfurum og fyrirliðum.

ÍA féll úr Pepsi-deildinni í haust og leikur í Inkasso-deildinni næsta sumar. Liðið var í erfiðri stöðu á botninum þegar Jón Þór tók við en á endanum varð fall niðurstaðan.

„Við urðum fyrir miklu áfalli varðandi undirstöðu liðsins og grindina þar sem við misstum markmann (Árna Snæ Ólafsson), hafsent og fyrirliða liðsins (Ármann Smára Björnsson) og svo fór sumarið eins og það fór hjá Garðari (Gunnlaugssyni)," sagði Jón Þór.

„Í þessum síðustu leikjum fórum við í að byggja aftur upp undirstöðuna og grunninn. Við héldum hreinu í þremur af síðustu fimmm leikjunum og sköpuðum hörku liðsheild. Við töpuðum ekki í síðustu fimm leikjunum og það var erfitt að vinna okkur. Ég held að maður geti ekki verið annað en kátur með hvernig tókst til. Ég tók við liðinu á erfiðum tíma þar sem liðið hafði ekki unnið leik síðan 19. júní. Sjálfstraustin og trúin var ekki mikil í upphafi. Þegar allt er skoðað held ég að maður geti verið sáttur."

Jón Þór var aðstoðarþjálfari ÍA með Gunnlaugi áður en hann tók sjálfur við liðinu. Jón Þór stefnir á að halda áfram við þjálfun.

„Ég hef fullan hug á því. Ég var með fulla einbeitingu á þessu verkefni sem því miður varð ekki raunin. Nú fer ég að skoða mín mál og hvað ég geri í framhaldinu," sagði Jón Þór.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner