Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 12. október 2017 18:45
Magnús Már Einarsson
Jói Kalli tekur við ÍA (Staðfest) - Siggi Jóns aðstoðar
Frá undirskrift á Akranesi í kvöld.
Frá undirskrift á Akranesi í kvöld.
Mynd: ÍA
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍA en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld. Jóhannes Karl er uppalinn hjá ÍA og hefur mikla reynslu sem leikmaður hér á landi og sem atvinnumaður erlendis m.a. hjá Burnley í Englandi.

Jóhannes Karl hættir sem þjálfari HK til að taka við ÍA. Jóhannes Karl stýrði HK í 4. sætið í Inkasso-deildinni í sumar. Eftir tímabilið var hann valinn þjálfari ársins í deildinni af þjálfurum og fyrirliðum.

„Það er mikill heiður og stór áskorun fyrir mig að takast á við að þjálfa ÍA, félagið sem ég er alinn upp í og félagið sem ég hef alltaf litið á sem mitt félag," sagði Jóhannes Karl eftir undirskrift í dag.

Sigurður Jónsson hefur jafnframt verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá ÍA. Sigurður hefur undanfarin ár verið þjálfari yngri flokka hjá ÍA og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðustu vikurnar en einnig hefur hann þjálfað knattspyrnufélagið Kára á Akranesi.

Sigurður er einn sigursælasti leikmaður Knattspyrnufélags ÍA og hefur víðtæka reynslu sem leikmaður og atvinnumaður erlendis m.a. hjá Arsenal í Englandi. Sigurður hefur einnig mikla reynslu sem þjálfari hér á landi og í Svíþjóð þar sem hann þjálfaði m.a. úrvalsdeildarfélagið Djurgården um tveggja ára skeið.

„Í raun er draumur minn að rætast með þessari ráðningu og það er sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til að vinna með reynsluboltanum Sigurði Jónssyni sem ég horfði á með lotningu á fótboltavellinum þegar ég var lítill strákur. Framtiðin er björt í fótboltanum á Akranesi og það er mjög spennandi að fá að taka þátt í því metnaðarfulla uppbyggingarstarfi sem unnið er á því sviði í bænum mínum," sagði Jóhannes Karl einnig.

ÍA féll úr Pepsi-deildinni í sumar en Jón Þór Hauksson stýrði liðinu í síðustu leikjunum eftir að Gunnlaugur Jónsson lét af störfum í ágúst.

„Knattspyrnufélag ÍA bindur miklar vonir við samstarfið við Jóhannes Karl og Sigurð og óskar þeim báðum góðs gengis í störfum sínum," segir í fréttatilkynningunni frá ÍA.

„Knattspyrnufélag ÍA vill sérstaklega þakka Jóni Þór Haukssyni fyrir frábært og óeigingjarnt starf sem aðstoðarþjálfari í þrjú leiktímabil og sem aðalþjálfari meistaraflokks karla undanfarnar vikur. Einnig vill félagið þakka öðrum í þjálfarateyminu fyrir gott starf en það eru þeir Ármann Smári Björnsson, Sigurður Jónsson, Þórður Guðjónsson og Guðmundur Hreiðarsson."

„Framundan eru spennandi tímar í knattspyrnunni á Akranesi þar sem byggt verður á gildum félagsins en þau eru metnaður, vinnusemi, þrautseigja, virðing og agi."

Athugasemdir
banner
banner
banner